Flugsamgöngur til Sauðárkróks og Siglufjarðar

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 10:35:36 (2784)


[10:35]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að fá að ræða utan dagskrár við hæstv. samgrh. í tilefni af því að Íslandsflug, sem haldið hefur uppi áætlunarflugi milli Siglufjarðar og Reykjavíkur nú um skeið, hefur boðað að Siglufjarðarflugi verði hætt um næstu áramót þar sem flugleiðin sé rekin með tapi. Jafnframt hefur Íslandsflug sett fram þrjá kosti til úrbóta.
    Í fyrsta lagi er sá möguleiki nefndur að félagið fengi leyfi til millilendinga á Sauðárkróki til að taka farþega og vörur en Flugleiðir hafa nú sérleyfi til flugs á Sauðárkrók og gildir það til 1997.
    Í öðru lagi er sá möguleiki nefndur að Íslandsflug fengi hlutdeild í farþegaflutningum milli Reykjavíkur og Akureyrar á leið sinni til og frá Siglufirði. Flugleiðir hafa eitt félaga leyfi á Akureyrarleiðinni en þó ekki sérleyfi. En ráðherra mun vera heimilt að veita öðrum flugfélögum 15% hlutdeild í áætluðum flutningum milli Reykjavíkur og Akureyrar frá næstu áramótum.
    Þriðji kosturinn er sá að opinberir aðilar veittu Íslandsflugi styrk til Siglufjarðarflugs en það skal tekið fram að bæjaryfirvöld á Siglufirði hafa ekki reynst reiðubúin til styrkveitinga í þessu skyni.
    Fyrsti kosturinn, sem hér var nefndur, er að minni hyggju tvímælalaust ákjósanlegastur. Flugfélag Norðurlands hefur annast flug milli Siglufjarðar og Akureyrar og því þarf að sjálfsögðu að halda áfram. En leiðin yfir Skagafjörð til Reykjavíkur er verulega miklu styttri og öruggari og liggur beinlínis yfir Sauðárkróksflugvöll. Við þetta bætist svo hitt að bæjarstjórn Sauðárkróks og ferðamálasamtök svæðisins hafa eindregið óskað eftir því að flugleiðin milli Sauðárkróks og Reykjavíkur verði opnuð öðrum flugfélögum og styðja því ósk Íslandsflugs mjög eindregið.
    Skagfirðingar hafa vaxandi áhyggjur af þróun Sauðárkróksflugs en þangað er nú flogið átta sinnum í viku, þar af sjö sinnum með viðkomu á Húsavík í annarri ferðinni en það hentar farþegum mjög illa og lengir ferðalagið verulega. Auk þess er aðeins flogið tvívegis í viku hverri tvisvar á dag sem kemur sér afar illa fyrir þá sem ekki geta verið nema einn dag í burtu. Því er það staðreynd að flugferðum til Sauðárkróks hefur farið fækkandi á seinni árum og nýlega lét forstjóri Flugleiða í ljós þá skoðun sína að óvíst væri um áframhald flugs til Sauðárkróks þegar göng undir Hvalfjörð hefðu verið grafin. Ef Sauðárkróksflugið er ekki látið drabbast niður hægt og þétt á næstu árum heldur þvert á móti endurskipulagt í tengslum við Siglufjarðarflug er enginn vafi á að þessi flugleið á mikla framtíð fyrir sér þrátt fyrir að þjóðvegurinn norður í land kunni brátt að styttast.
    Vandinn í Sauðárkróksfluginu er bersýnilega sá að Fokkervélar Flugleiða eru of stórar og dýrar í rekstri fyrir það flug en með minni vélum mætti vafalaust auka flugtíðnina og þar með farþegafjöldann. Sameining áætlunarflugs til Sauðárkróks og Siglufjarðar mundi síðan stórauka hagkvæmni í rekstri þessara flugleiða.
    Sá kostur að opna flugleiðina til Akureyrar um næstu áramót fyrir allt að 15% farþegafjöldans hlýtur vissulega að koma einnig til álita enda er það ljóst að 1997 verður innanlandsflug orðið frjálst á þeim áætlunarleiðum sem hafa fleiri en 30 þúsund farþega. Fyrir Siglfirðinga og Skagfirðinga er þó fyrri leiðin ákjósanlegri. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um það hvort ekki komi til greina að hann óski eftir sérstökum viðræðum við Flugleiðir hf. um þetta mál í heild sinni. Öllum er ljóst að Flugleiðir hafa sérleyfi

á Sauðárkróksflugi til ársloka 1997 en það sérleyfi verður að skoða í ljósi breyttra aðstæðna og í máli þessu verður að leita samkomulags en til þess þarf frumkvæði ráðherra. Að því leyti er samningsstaða ráðherrans gagnvart Flugleiðum svo sterk að líklegt er að Flugleiðir vilji frekar slá af kröfum sínum til Sauðárkróksflugs en sæta samkeppni á Akureyrarleiðinni frá næstu áramótum.
    Kjarni málsins er sem sagt sá að vanda ber að höndum í flugmálum Siglfirðinga, breyttar aðstæður kalla á breytt skipulag í flugi til Sauðárkróks og Siglufjarðar og þar þarf að hafa hagsmuni fólksins, hagsmuni farþeganna, efst í huga og þá að sjálfsögðu byggðanna sem þarna eiga í hlut.