Flugsamgöngur til Sauðárkróks og Siglufjarðar

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 10:48:43 (2787)


[10:48]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég get ekki annað en verið óánægður með svör hæstv. ráðherra. Hér er um mjög mikilvægt byggðamál að ræða og það er að skapast alveg óviðunandi ástand.
    Flugleiðir hafa eins og fram hefur komið þjónað Sauðárkróki illa á undanförnum árum og sætanýting þangað hefur dottið niður vegna þess að fólk gerir sér það ekki að góðu að þurfa að taka þennan krók til Húsavíkur. Ég tel að það séu fullkomin efni til þess að afnema einokun Flugleiða á flugi til Sauðárkróks og ég tel að hæstv. samgrh. verði að ganga í málið. Það er hægt að slá tvær flugur í einu höggi. Ég aðhyllist langfrekast fyrsta kostinn af þeim sem Íslandsflug setti fram til úrbóta, þ.e. að heimila þeim að millilenda á Sauðárkróki og taka þar farþega og vörur.
    Fyrir nokkrum árum síðan var það skipulag innleitt að Íslandsflug fékk að fljúga líka til Vestmannaeyja og ég veit ekki betur en það skipulag hafi gefist vel og sætanýting batnað. Einokun í sjálfu sér er úrelt og það verður að opna þetta og gefa frjálsræði og það ætti að vera metnaðarmál hinum mikla sjálfstæðismanni, hæstv. samgrh., að beita sér fyrir því. Ástandið er sem sagt óviðunandi. Það er ómögulegt að hafa þessar byggðir í gíslingu Flugleiða og ráðherra verður að beita áhrifum sínum til þess að lagfæra þessi mál.