Flugsamgöngur til Sauðárkróks og Siglufjarðar

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 11:03:54 (2794)


[11:03]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Inn í þessar umræður um sérleyfi til Siglufjarðar hafa blandast almennar umræður um framkvæmdir í flugmálum. Ég vil nota tækifærið og geta þess að mér finnst það gersamlega óviðunandi og skökk ráðstöfun eftir það framkvæmdaskeið sem hefur verið í uppbyggingu flugmála undanfarin ár og hófst með flugmálaáætlun á sínum tíma, mörkuðum tekjustofnum, að nú sé tækifærið notað og skorið á framkvæmdir á Norður- og Austurlandi sem eru hálfkaraðar. Ég skil ekki þá ráðstöfun af því að í rauninni vantar herslumuninn í þessum málum til að gera meginflugvelli landsins nokkuð góða. Það hefur verið mikið uppbyggingarskeið í þessum málum þannig að ráðstöfunin, sem birtist á síðustu dögum þingsins í niðurskurði til þessara mála, er algerlega óskiljanleg og ástæðulaus og málinu mundi skipa mjög á veg ef nú yrði haldið áfram og kné látið fylgja kviði í þessum efnum.