Listmenntun á háskólastigi

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 11:35:07 (2802)


[11:35]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju minni með að þetta frv. skuli fram komið. Ég held að það sé góður áfangi í menningar- og listalífi landsins. Það er hins vegar alveg rétt sem hæstv. ráðherra minntist á að það eru óneitanlega margir lausir endar í þessu frv. Persónulega hef ég ekkert á móti því að hér sé um sjálfseignarstofnun að ræða og tel að það sé mikilvægt að slík stofnun hafi sjálfstæði á allan hátt. En það eru örfá atriði sem ég held að hv. nefnd sem fær málið til meðferðar verði að skoða ofurlítið betur. Ég vil t.d. nefna hlutdeild Reykjavíkurborgar í kostnaði við stofnunina. Vissulega tók hæstv. ráðherra fram að það mál væri óuppgert við Reykjavíkurborg en ég bendi á að við búum í fleiri bæjarfélögum á suðvesturhorninu en í Reykjavík. Það segir sig sjálft að Seltjarnarnes, Garðabær og Hafnafjörður hlytu auðvitað að koma þarna til leiks líka, jafnvel Akureyri og önnur stærri bæjarfélög í landinu þar sem að sjálfsögðu yrði um að ræða skóla sem sinnti kennslu í listgreinunum á landsvísu. Þetta held ég að verði að hnýta betri hnútum svo ekki komi upp ágreiningur síðar meir.
    Ég hlýt að lýsa undrun minni að lesa það í greinargerð að Háskóli Íslands skuli hafa alfarið hafnað allri þátttöku í þessu skólahaldi. Það sýnir satt að segja á svolítið kaldranalegan hátt það viðhorf sem hefur færst í aukana í Háskóla Íslands að meta nám í svokölluðum hagnýtum greinum meira en í humaniora sem einu sinni þótti undirstaða háskólamenntunar. En það verður að vera þeirra vandi og það er ánægjulegt að til skuli vera fólk í þessu landi sem skilur eðli sannrar menntunar.
    Með þessu frv. fylgja góð gögn og er það satt að segja ekki allt of venjulegt. Það er ánægjulegt að fá m.a. drög að skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands. Þar hnýt ég um í annarri grein orðalag sem greinilega er nú tekið upp úr, hygg ég, plöggum Háskóla Íslands. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Listaháskóli Íslands er miðstöð æðri mennta á sviði tónlistar, myndlistar, leiklistar og annarra listgreina sem uppfylla kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna á háskólastigi.`` Ég held að þessa setningu þyrfti aðeins að endurskoða. Ég geri ráð fyrir að hlutverk skólans yrði kannski ekki að uppfylla kröfur um rannsóknir á þessum efnum. Auðvitað yrði það starf unnið líka en ég hygg nú að listaháskóli hljóti að vera byggður dálítið öðruvísi upp. En þetta eru atriði sem má ræða seinna. Aðalatriðið er að það er loksins einhver gangur í þessu máli og skilningur á því að við þurfum að efla listkennslu í landinu.
    Það er talað um tónlist, myndlist og leiklist og vissulega talað um aðrar listgreinar. Ég vil biðja menn einnig um að muna eftir að fleiri listgreinar eru til. Þar vil ég minna á kornabarnið okkar, danslistina, sem við höfum ekki búið góð skilyrði gegnum árin og ýmislegt fleira. Ég held líka að við eigum að huga að kynningu á íslenskri list. Ég minni á frv. sem við höfum flutt hér og fyrsti flm. er hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, um að skipulega verði unnið að kynningu á íslenskri list erlendis. Ég held að við eigum að horfast í augu við að við eigum hóp af góðum listamönnum sem við eigum að búa öll hin bestu skilyrði og að sjálfsögðu gera okkur gildandi meðal annarra þjóða, við höfum alveg efni til þess.
    Ég tek undir með hv. 3. þm. Norðurl. e. að auðvitað er ekki nóg að samþykkja lög ef ekki fylgir hugur máli og fjárln. hins háa Alþingis stendur síðan ekki vörð um þessa stofnun og leggur henni fjármagn því vissulega þarf fjármagn til, því megum við ekki gleyma. Ég sæi heldur ekkert athugavert við það að leitað yrði til félagasamtaka og einstaklinga í þjóðfélaginu. Ég vil minna á samtök launamanna, verkalýðshreyfinguna, hún væri rétt til að koma inn í þessa stofnun og leggja henni nokkurt fé. Víðar mætti leita fanga, t.d. í stórum fyrirtækjum sem hafa einkaleyfi, svo ekki sé meira sagt, á ýmsum þáttum samfélagsins. Nægir að minna á samgöngumálin sem hér voru til umræðu í morgun, og margt fleira. En aðalatriðið er auðvitað að hér sé vandað vel til, ráðið fólk sem við treystum og getur byggt upp þessa stofnun sem

er mikið fagnaðarefni að fá og síðan að hið háa Alþingi tryggi að reksturinn megi blómgast og dafna öllum til farsældar og heilla. Ég vona að málinu fylgi ekki áralangt sleifarlag eins og við létum viðgangast varðandi Landsbókasafn. Það er ánægjulegt að sjá fyrir endann á byggingu þess og við í hv. fjárln. munum reyna að sjá til þess að sá rekstur verði með sóma. Ég vil því upplýsa hv. 3. þm. Norðurl. e. að áhyggjur hennar af rekstrarfé til stofnunarinnar eru óþarfar og hún getur verið áhyggjulaus. Ég held að fjárln. sé einhuga í því að sá rekstur fari fram með þeim sóma sem stofnuninni hæfir.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frv. fram. Ég vona að það fái vandaða meðferð í hv. menntmn. og lýsi því yfir, hæstv. forseti, að það koma þau augnablik að það er svolítið gaman að taka þátt í rekstri þjóðfélagsins.