Listmenntun á háskólastigi

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 11:43:16 (2803)


[11:43]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé hreyft miklu máli og þýðingarmiklu. Ég vissi ekki alveg af því að þessi umræða væri akkúrat núna þannig að því miður hef ég ekki kost á því að taka þátt í henni ítarlega eins og ég vildi vegna þess að ég þarf að sinna öðrum þingskyldum eftir fáeinar mínútur en á kost á því að ræða þetta mál í hv. menntmn. og tel það út af fyrir sig þar með tryggt að ég geti komið að málinu með einhverjum hætti og mínum sjónarmiðum að.
    Það eru nokkur meginatriði sem ég tel að við þurfum að taka fyrir og nokkrar spurningar sem við þurfum að leggja fyrir okkur í tengslum við mál af því tagi sem hér liggur fyrir.
    Í fyrsta lagi: Hver er fagleg staða þessarar stofnunar miðað við aðra háskóla? Það er spurning sem við hljótum að spyrja okkur númer eitt, bæði að því er varðar kennslukrafta, forustu þessarar stofnunar og annað faglegt umhverfi í heild. Ég held að það sé mjög mikið mál að myndarlega sé að því staðið þannig að hér sé um að ræða og verði um að ræða, traustan, virtan alvöruháskóla á listasviði. Það er mjög mikilvægt að menn leggi af stað með metnaðarfullar kröfur í þessum efnum þannig að það sé algerlega tryggt að það verði undir engum kringumstæðum hægt að líta á þessa stofnun sem annars flokks stofnun af neinu tagi. Hún þarf helst að vera myndug háskólastofnun sem nýtur viðurkenningar svo að segja hvar sem er frá fyrsta degi sinnar tilveru. Þess vegna er auðvitað mjög mikilvægt að stofnunin hafi skipulega samvinnu við Háskóla Íslands. Auðvitað er ekki hægt að láta háskólann komast upp með að neita því eins og virðist vera gert hér í þessum pappírum og afgreitt í hálfri setningu í greinargerð. Háskóli Íslands getur auðvitað ekki neitað þátttöku í þessu máli, hann verður að koma að því. Menntmrh. á að sjá til þess og aðrar háskólastofnanir á Íslandi og aðrar stofnanir á Íslandi eins og Kennaraháskóli Íslands þurfa auðvitað að eiga góða samvinnu við þessa stofnun vegna þess að hún hlýtur líka að verða þátttakandi í því að mennta listgreinakennara í landinu með einhverjum skipulegum hætti. Þess vegna hlýtur Kennaraháskólinn líka að koma inn í þessa mynd ef skynsamlega er á hlutunum haldið. Ég tel því ekki hægt að slá því föstu að háskólinn komi hér hvergi nærri heldur eigi þvert á móti að slá því föstu að við ætlumst til þess af hæstv. menntmrh. að hann tryggi það að Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn komi nærri þessari stofnun með skipulegu samstarfi, helst strax frá fyrsta degi.
    Ég minni á það að í minni menntamálaráðherratíð lét ég gera slíkan samning milli Háskóla Íslands og listaskólanna. Það var samningur sem skipti mjög miklu máli og hefur hjálpað til við að þróa þetta mál áfram og ég minni á það sem sjálfsagt flestir vita að í rauninni fer hér þegar fram listnám á háskólastigi í landi okkar sem ótrúlega fáir virðast gera sér grein fyrir. Hér er því að nokkru leyti um það að ræða með þessu frv. að menn eru að staðfesta veruleika sem hefur verið til um alllangt skeið en menn hafa ekki fengist til að horfa á í samhengi.
    Í öðru lagi hljóta menn svo að spyrja í þessari umræðu um kostnað og m.a. um aðild annarra aðila eins og Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg er sérstaklega nefnd vegna þess að hún hefur átt aðild að Myndlista-og handíðaskólanum og fleiri listaskólum í landinu og auðvitað á að tryggja það að hún hafi það áfram. En það er líka rétt sem hv. 14. þm. Reykv. sagði áðan að önnur sveitarfélög eiga að koma hér til ef kostur er á því. Í því sambandi nefni ég kannski sérstaklega Myndlistarskólann á Akureyri, að ég held að eigi að hafa það í huga með hvaða hætti er hægt að styrkja hann og efla án þess að ég sé að segja og ég tek það sérstaklega fram, ég er ekki með þessu að segja að öll listmenntun í landinu eigi undir öllum kringumstæðum að vera það sem kallað er á háskólastigi. Ég held að menn þurfi að gera mjög glöggan greinarmun á þeirri listmenntun sem er á háskólastigi annars vegar og annarri listmenntun af margvíslegu tagi sem einnig er mikilvæg hins vegar.
    Í tengslum við þetta þurfa menn síðan að horfa á kostnaðinn í heild og þar á meðal skólagjöldin. Ég sé ekki betur en að það sé reiknað með mjög háum skólagjöldum í þessum áætlunum. Það er gert ráð fyrir því að skólagjöld í þessari áætlun, í fskj. 4 á bls. 13 í frv., séu talsvert há og ég held að það sé mál sem þarf líka að skoða, það verði að setja þak á skólagjöldin og ég tel að það þak sem gert er ráð fyrir í textanum sé ekki nægilega skýrt þannig að það sé hætta á því að hérna verði nemendum gert að greiða hærri skólagjöld en í öðru háskólanámi á Íslandi og þar með yrði þetta háskólanám ekki sambærilegt við annað háskólanám. Þar með væri þeim sem stunda listnám á háskólastigi gert að búa við aðrar aðstæður og önnur kjör en öðrum háskólanemum í þessu landi og það teldi ég óviðunandi. Þar með teldi ég

að það væri verið að gefa það í skyn að hér væri um að ræða einhvern annan flokk af háskóla en við erum með að öðru leyti í landinu.
    Ég vil síðan segja í sambandi við hitt atriðið sem er spurningin um sjálfseignarstofnun að ég tel það út af fyrir sig alveg geta komið til greina, ég útiloka það ekki neitt að það verði sett upp slík stofnun enda verði hún í góðum tengslum við íslenska skólasamfélagið að öðru leyti. Þessi stofnun getur ekki verið eyland heldur verður hún að vera í tengslum við íslenska skólasamfélagið að öðru leyti en mín vegna má þetta heita sjálfseignarstofnun ef menn telja það eitthvað betra og það getur haft vissa kosti í för með sér. Það er ekki hægt að neita því. Þannig að ég held að það eigi að skoða það en um leið eigi að gera mjög strangar, faglegar kröfur til þeirra sem þarna eru starfsmenn, bæði kennara og annarra forstöðumanna.
    Ég legg sem sagt á það áherslu að þetta þarf að vera myndarleg háskólastofnun strax frá byrjun með mikinn faglegan metnað.
    Ég tek eftir því að það er gert ráð fyrir því að þessi stofnun fái til afnota húsnæðið að Laugarnesvegi 91 sem keypt var fyrir nokkrum árum og hefur verið notað nokkuð, þó í litlu sé í seinni tíð, en þarf auðvitað að búa áfram þannig að það geti verið umgjörð um þessa starfsemi. Ég tel að fáir staðir séu í raun og veru hentugri til þessarar starfsemi þarna í grennd við Laugarnestangann í nágrenni við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og alls konar möguleika á Laugarnestanganum þannig að ég held að í Reykjavík sé varla hægt að hugsa sér betri stað fyrir þessa stofnun í framtíðinni.
    Ég held því að hér sé hreyft prýðilegu máli, ég tel hins vegar að það sé sjálfsagður hlutur að fara vel yfir málið í hv. menntmn. og eins og ég sagði áðan þá mun ég taka þátt í því sem nefndarmaður þar en vildi koma þessum almennu athugasemdum við frv. á framfæri þó að út af fyrir sig mætti hafa uppi ýmsar pólitískar athugasemdir eins og þær að það er auðvitað dálítið athyglisvert að ríkisstjórn sem opnar Þjóðarbókhlöðuna og á ekki peninga til að reka hana nema fram í september á næsta ári, að því er starfsliðið segir, það talar um að það þurfi að loka Þjóðarbókhlöðunni í september ár hvert miðað við þau fjárlög sem nú er gert ráð fyrir. Ég ætla ekki að fara að skattyrðast um það mál á þessu stigi en segi bara að peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal, líka í menningarmálum. Það verður ekkert fram hjá því horft, það er veruleiki sem menn verða að viðurkenna. Líka í frv. um listmenntun á háskólastigi en ekki bara í fjárlagafrv.