Listmenntun á háskólastigi

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 12:01:41 (2805)


[12:01]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get eins og aðir sem hafa tekið til máls tekið undir að það er vissulega ánægjulegt að sjá slíkt frv. komið fram í mestu önnunum þegar við erum að ræða um fjárlög og fjáraukalög, lánsfjárlög og hvað sem heitir.
    Lengi hefur verið unnið að undirbúningi þessa frv. Það segir hér í geinargerð að frv. til laga um myndlistaháskóla Íslands hafi fyrst verið lagt fram árið 1984 en nú sjáum við árangur þar sem verið er að leggja til listmenntun á háskólastigi sem tekur til fleiri greina en myndlistar.
    Það má minna á það að úti um allt land er alls konar listsköpun í gangi og tónlistarskólar hafa starfað á landsbyggðinni, sprottið upp nánast í hverju sveitarfélagi og eru sumir orðnir allt að 40--50 ára gamlir. Þeir hafa haft gífurleg áhrif á menningarlíf sinna staða og verður það seint þakkað eins og vert er.
    Í sveitarfélögunum og alls staðar úti um landið, einnig á höfuðborgarsvæðinu, fer fram undirbúningur þeirra nemenda sem síðan eiga að sækja sitt nám í listaháskólanum.
    Það eru ekki bara í gangi tónlistarskólar úti um allt land heldur einnig listaskólar og hin allra síðustu ár hafa sprottið upp listaskólar í öllum landsfjórðungum og síðast á Ísafirði fyrir einu ári var stofnaður listaskóli. Hann hefur raunar, eins og tónlistarskólarnir, þegar sannað tilverurétt sinn því að mikil aðsókn hefur verið að honum, allar þær menningaruppákomur, sem þar hafa farið fram, hafa verið mikið sóttar og þau námskeið sem þar hafa verið í gangi.
    Það er sama á Akureyri. Þar hafa listamenn tekið sig saman og stofnað til listaskóla og ég hygg að þar hafi einnig verið sú reynsla sem ég var að lýsa hér.
    Af því að ég var að ræða listnám í grunnskólum vildi ég einnig koma því hér að að ég tel að í nýjum grunnskólalögum sé alveg nauðsynlegt að samþykkja að í grunnskólunum fari einnig fram listkynning, þ.e. þar geti listamenn komið og kynnt verk sín og lýst þeim fyrir nemendum og vakið þannig áhuga þeirra og það er liður í uppeldi nemenda. Það hefur sýnt sig að uppeldi í tónlist kennir börnum að meta tónlist, meta sígilda tónlist og læra að hlusta og tileinka sér hana, fá áhuga fyrir henni og síðar að iðka hana. Ég held að við þyrftum að huga betur að listkynningu í grunnskólum en verið hefur.
    Eins og ég sagði fagna ég því að þetta frv. er fram komið og nú skuli verða farið að nýta þetta hús á Laugarnestanga sem mér finnst vera verðugur rammi utan um listaháskóla. En þó vek ég athygli á því að mér finnst undarlegt að í fskj. 1 frá fjmrn. segir að samþykkt frv. feli ekki í sér neinar kostnaðarskuldbindingar fyrir ríkissjóð. Það finnst mér nokkuð undarlegt ef þessi samþykkt felur ekki í sér einhverjar kostnaðarskuldbindingar og ég spyr hæstv. ráðherra að því hvernig það getur átt sér stað. Enda þótt 1. umr. um málið fari nú fram eru undirtektir þannig í salnum að búast má við því að frv. þetta gæti orðið að lögum á þessu þingi. En ég held að til þess að koma því á laggirnar, svo sem verðugt er, hljóti að þurfa að vera einhverjar kostnaðarskuldbindingar þar á bak við.
    Að öðru leyti geri ég fastlega ráð fyrir því að hv. menntmn. Alþingis fjalli um málið vinsamlega. Það er greinilegt að það verður gert. En af því að ég mismælti mig og nefndi efh.- og viðskn. gæti farið svo að efh.- og viðskn. eða fjárln. yrðu einnig að fjalla um þau fjárframlög sem til þessara mála þurfa. Af því að ég nefni þetta vil ég einnig koma að einu atriði í viðbót í sambandi við fjármuni sem eru á bls. 2 í greinargerðinni, þar segir, með leyfi forseta: ,,Meginástæða þess að enn hefur ekki verið sett löggjöf um listmenntun á háskólastigi hér á landi svo lengi sem hefur verið stefnt að er sú að fyrirsjáanlega hefði slík breyting haft í för með sér umtalsverðan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð.``
    Hér stangast hlutirnir nokkuð á og væri fróðlegt að heyra hvaða svör hæstv. menntmrh. hefur við því.