Listmenntun á háskólastigi

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 12:17:53 (2807)


[12:17]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er tvennt. Í fyrsta lagi varðandi það sem ég sagði um skýrslu nefndarinnar sem ég veitti formennsku þá kemur fram á bls. 3 í grg., með leyfi hæstv. forseta: ,,Tillögurnar voru kynntar þegar skýrslan kom út og í febrúar 1994 gekkst Bandalag ísl. listamanna fyrir mjög fjölmennri ráðstefnu um listaháskólamálið. Í framhaldi af ráðstefnunni hafa drög að skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnun um listaháskóla verið endurskoðuð í menntmrn. í samvinnu við stjórn Bandalags ísl. listamanna og bætt við þau athugasemdum til frekari glöggvunar.``
    Það var þetta sem ég var að vísa til og ég tel að hér liggi fyrir sem fylgiskjöl með frv. plöggin eins og þau líta út eftir að ráðuneytið og Bandalag ísl. listamanna hafa farið yfir okkar tillögur. Að því leyti er hér um annan og má segja fastmótaðri texta að ræða en við gerðum tillögur um.
    Varðandi spurningar eins og hv. þm. nefndi um réttindi kennara, lífeyrismál og annað slíkt þá verða menn að átta sig á því að það er ekki Alþingis að ákveða það í þessu tilviki. Alþingi ákveður ekki kjör manna við þennan skóla heldur er það skólinn sjálfur sem gerir samninga við sína starfsmenn á grundvelli samnings sem hann gerir og samnings ríkisins við skólann. Ég bið menn að fara ekki að blanda óskyldum málum inn í þetta. Ef þeir vilja að skólinn sé þannig að það sé ríkisvaldsins og Alþingis að ákveða þetta þá eru þeir að tala um annað en felst í þessu frv.