Lífræn landbúnaðarframleiðsla

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 12:57:37 (2814)


[12:57]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. vék að tveim atriðum, annars vegar hvaða möguleika við Íslendingar hefðum á því að taka upp okkar eigin staðla. Því er til að svara að fyrsta skrefið er að fá viðurkenningu á þeim

grunnreglum sem við setjum okkar, að þær séu innan þess ramma sem erlendis er, alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga og annarra slíkra hreyfinga. Síðan getum við auðvitað á grundvelli þess sett okkur frekari reglur. Ekki er hægt að kveða upp úr um það hversu mikið skorti á að einstakar starfsgreinar landbúnaðarins uppfylli þá staðla sem hér er talað um enda er viðurkenningin ekki veitt heilum búgreinum heldur bónda eða jörð.