Framleiðsla og sala á búvörum

61. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 10:43:59 (2822)

[10:43]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. mun væntanlega vera í minni, þá var eftir því leitað að landbn. tæki þetta mál aftur til umfjöllunar á milli umræðna og hefur hún orðið við því. Eftirtaldar breytingar liggja því fyrir við afgreiðslu málsins:
    1. Á þskj. 311 stendur a-liðurinn óhaggaður frá því sem var við 2. umr. en b-liðurinn er kallaður aftur.
    2. Á þskj. 376 er lögð fram tillaga við breytingu á 1. málsl. 3. efnismgr. 1. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Framleiðsluráð skal skipað til eins árs í senn frá og með 1. apríl ár hvert.`` Í staðinn er lagt til að komi, eins og segir í brtt., að 1. málsl. orðist þannig: Framleiðsluráð skal skipað árlega við lok hvers reglulegs búnaðarþings.
    Það er þá alveg skýrt að nýtt Framleiðsluráð tekur til starfa þegar að loknu fyrsta búnaðarþingi og hefst þá kjörtímabil þess ráðs.
    Með sama hætti er lagt til að gerð verði breyting á 2. gr. sem er sama efnis með því að þar falli niður síðasti málsliðurinn og í staðinn komi það orðalag sem brtt. kveður á um.
    Það er augljóst mál að það var full ástæða til að fara nákvæmar yfir málið og að ábendingar hæstv. landbrh. voru í tíma talaðar.