Veiting ríkisborgararéttar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:07:02 (2827)


[11:07]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég kem ekki í ræðustól til þess að gera neinar athugasemdir við þá brtt. sem hér er eða störf hv. allshn. í þessu máli. Ég býst við að þetta sé allt vel unnið eins og venjulega. Ég kem hér fyrst og fremst eins og ég hef reyndar gert áður til þess að gera athugasemdir við uppsetningu þingskjalsins.
    Ég hef nokkrum sinnum áður gert athugasemd við það að ekki skuli vera fylgt íslenskri hefð við uppsetningu þskj. og ég kem hér aftur vegna þess að mér finnst enn þá meiri ruglingur í þessu máli en oft áður. Ég skil ekki af hverju sumir eru flokkaðir eftir fornöfnum og aðrir eftir eftirnöfnum. Þetta fólk er að sækja um íslenskan ríkisborgararétt og það hefur væntanlega átt heima á Íslandi í þó nokkur ár og það hefur örugglega vanist því að skrifa nafnið sitt samkvæmt íslenskri venju. Hérna er þeirri venju ekki fylgt heldur eru eftirnöfnin oftast sett á undan, þó ekki alltaf. Við getum tekið sem dæmi að nr. 41 stendur Kristín Birna Porter. Það er ekki íslenskt eftirnafn. Samt er hún flokkuð samkvæmt fornafni. Síðan kemur nr. 53 Róbertsson, skrifað alveg eftir íslenskri hefð og svo kemur erlent fornafn. En svo koma nöfn, eins og t.d. Sigurður Smári Hergeirsson og skrifuð eftir íslenskri hefð. Ég ítreka það að ég tel að við eigum að fara eftir íslenskri nafnahefð þegar við setjum upp þskj. og langar þess vegna til að spyrja eftir hvaða reglu er farið við uppsetningu þskj. og hvort það er hv. allshn. sem ákveður þetta eða hvort það er nefndadeildin eða hver það er sem ákveður uppsetninguna. Og ég endurtek aftur, ég er ekki að gera neina athugasemd við störf nefndarinnar heldur eingöngu við uppsetningu þskj. Ég tel að þeir sem þarna eru að biðja um íslenskan ríkisborgararétt vilji gjarnan að það sé farið eftir íslenskri nafnahefð, þessir nýju borgarar sem við erum þarna að veita íslenskan ríkisborgararétt, ég tel að það sé mjög eðlilegt og þeir hafi örugglega ekkert á móti því að nöfn þeirra séu sett upp með þeim hætti.