Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:32:33 (2833)


[11:32]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Það gildir um þetta frv. sem og önnur frv. sem hér hefur verið mælt fyrir að þau koma mjög seint fram svo að þingmenn eiga ákaflega erfitt með að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem fram hafa komið af hálfu nefndarinnar en mér heyrist að það sé í flestum tilvikum um tæknilegar breytingar að ræða og verðum við væntanlega að treysta þeim nefndarmönnum sem þarna eru og geri ég það fullkomlega. En það er þó eitt atriði sem mig langar til að spyrja um núna sem varðar það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði, frsm. nefndarinnar, að nefndin hefði ekki treyst sér til að taka inn brtt. varðandi viðurlagakaflann. Ég held að við þurfum að fá aðeins skýringu á því. Ég sá ekki neina brtt. hér á borðum þingsins þannig að það þyrfti aðeins að fá betri skýringu á því hvað þarna er á ferðinni til þess að við áttum okkur á hvers vegna það er ekki tekið inn ef það hefur legið eitthvað á borðum nefndarinnar. Það er aðeins þetta atriði núna sem ég vildi fá að vita. Ég býst við að við fáum að vita hvers vegna fyrirvarar annarra nefndarmanna eru við frv. á eftir.