Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:34:03 (2834)


[11:34]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var ákveðin ónákvæmni hjá mér eða réttara sagt gleymska. Ég var reyndar að taka þarna fyrir atriði sem tengdust meira lögunum um bókhald og ársreikninga. En í frv. þar, eins

og við fengum þau, voru ekki nýir kaflar um viðurlög og refsingu. Þá kafla var verið að semja og við fengum þá ekki inn til nefndarinnar fyrr en um miðja þessa viku. Hugmyndin var, ef tími hefði unnist til, að taka þá inn sem brtt. nefndarinnar. En nefndin treysti sér ekki til þess, m.a. vegna þess að þessu hefði þurft að fylgja bæði breytingar á refsiákvæðum skattalaga og breytingar á almennum hegningarlögum. Frv. um breytingu á hegningarlögunum var ekki komið fram og hefði ekki komið fram fyrr en eftir helgi þannig að það var eiginlega orðið útséð um að hægt væri að koma þessu með inn.
    Þetta er hins vegar afar mikilvægt fyrir framgang þessara mála og til þess að þessi löggjöf öll um félögin og um bókhald og ársreikninga verði heildstæð. Nefndin hefur lýst sig fúsa til þess að flytja þessa kafla sem frv. eftir áramót strax þegar þing kemur saman en öðruvísi er ekki hægt að koma þeim inn hér eftir. Við hefðum getað komið þeim inn sem brtt. meðan á vinnu málsins stóð. En það þótti mjög mikilvægt að lögfesta frv. fyrir áramót. Ef það hefði dregist fram yfir áramót þá þýddi það að það hefði dregist um eitt ár að menn hefðu getað farið að vinna eftir nýjum lögum um ársreikninga og bókhald.