Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:56:59 (2838)


[11:56]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langar í fyrsta lagi að lýsa yfir ánægju minni með hvað efh.- og viðskn. hefur staðið vel að málum og unnið sameiginlega að þessum frv. sem hér eru rædd. Ég þekki það hvernig sú nefnd starfar saman og vil nota þetta tækifæri til þess að geta þess að mér finnst sérstaklega jákvætt hvernig vinnubrögðin eru þar. En ég kem hér upp út af 54. gr. Það var nýmæli að takmarka rétt manna til að sitja sem stjórnarmenn og framkvæmdastjórar í hlutafélögum við ákveðnar aðstæður, ítrekað gjaldþrot hlutafélags og/eða einkahlutafélags. Það er mín skoðun að niðurstaða nefndarinnar gerir það að verkum að virknin verði ekki jafnmikil af ákvæðinu eins og það situr eftir og það sem sett var fram. Ég vil geta þess vegna gjaldþrotanna, sem hafa verið nefnd hér, að í 54. gr. var sagt að hlutafélagaskrá gæti veitt undanþágu frá þessu skilyrði ef sérstaklega stendur á og það ákvæði átti við þá tegund gjaldþrota þegar verið var að reyna að bjarga fyrirtækjum en tókst ekki. En ég geri mér alveg grein fyrir því hversu mikilvægt það er að ná samstöðu um og góðri niðurstöðu í mál af þessu tagi og ég tel að þessi grein, eins og hún eftir stendur, sé mjög til bóta og er líka ánægð með að haldið var inni í greininni sem sagt þetta ,,bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld``. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt.
    En ég er ánægð með afgreiðsluna á þessu máli en vildi samt árétta að þetta er eitt af þeim tækjum sem við höfum til að taka á þeirri ógætni sem oft er í meðförum almannafjár, sem oft er í skilum á sköttum og öðru slíku og síendurteknu gjaldþrotum með þann fylgifisk að skattar skila sér ekki. Það er eitt af því sem þarf að taka á og ég býst við að þetta frv. verði til þess.