Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:59:20 (2839)


[11:59]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu hárrétt hjá hæstv. félmrh. að efh.- og viðskn. er hin mætasta nefnd og vinnur vel og samviskusamlega. Ég held að við höfum reynt eftir atvikum að leggja alla þá vinnu í þetta vandasama ákvæði sem við höfðum möguleika til og það varð sem sagt niðurstaðan að ganga frá því með þessum hætti. Ég held að gagnvart því sem hæstv. félmrh. sagði varðandi það hlutverk sem hlutafélagaskrá, sem er í sjálfu sér ekki stór stofnun í lýðveldinu, hefði verið ætlað með óbreyttum ákvæðum laganna hefði náttúrlega leitt af sjálfu, að ef sú stofnun hefði átt að sjá um þetta hlutverk og rækja það þá hefði orðið að gjörbreyta hennar starfssviði og auka til muna möguleika hennar á því að sinna sínu hlutverki. Það er mín tilfinning að það hefði orðið niðurstaðan að hlutafélagaskrá eða þeir aðilar sem þá hefðu fjallað um þetta hefðu orðið að veita undanþágu í öllum tilvikum sem um það hefði verið beðið þegar aðilar sem tengst hefðu gjaldþrotum þó ítrekað væri hefðu óskað eftir því að fá undanþágur ef um ekkert saknæmt eða ámælisvert hefði verið að ræða í þeim tilvikum. Það hefði varla getað orðið önnur niðurstaða en að hlutafélagaskráin hefði þá orðið að veita öllum sem ekki hefðu orðið uppvísir að eða dæmdir fyrir neinn refsiverðan verknað í tengslum við gjaldþrotin undanþágu ef þeir hefðu óskað eftir því að fá að setjast í stjórnir félaga eða gerast framkvæmdastjórar. Þá er auðvitað spurning hvort ekki sé í reynd heppilegra að snúa ákvæðunum við og ganga þannig frá málinu að það sé einungis í þeim tilvikum sem takmörkunin gildir. Ég er orðinn þeirrar skoðunar að þrátt fyrir allt sé það sennilegra heppilegra fyrir utan það, eins og ég segi, að það hefði þá orðið að gjörbreyta möguleikum hlutafélagaskrár til þess að rækja sína starfsemi ef þetta hefði átt að standa svona.