Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:44:20 (2852)


[12:44]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Þingmönnum er nokkur vandi á höndum þegar mál er lögð fram með svona stuttum fyrirvara auk þess sem maður er boðaður á fundi í hliðarsali þannig að það er svolítið erfitt að fylgjast með en ég hef örlitlu við að bæta það sem hv. 6. þm. Vestf. sagði áðan varðandi frv. Ég tel að þarna sé mjög mikið athugunarefni og við þurfum að kanna þetta sérstaklega og tek undir hennar orð og ætla ekki að endurtaka það.
    En það sem ég er líka að velta fyrir mér varðandi þetta atriði er að menn viti hvar þeir standi. Við getum bara tekið sem dæmi iðgjald. Hvað með iðgjaldið ef menn eru kannski búnir að borga gjald vegna brunatrygginga í svo og svo langan tíma og miða við eitthvert ákveðið fasteignaverð sem er brunabótamat og svo skyndilega brennur hús þeirra, við skulum segja, eins og hér hefur verið tekið fram, á Ísafirði eða Höfn í Hornafirði eða hvar sem er? Þá halda menn að þeir fái greitt í samræmi við það iðgjald sem þeir hafa greitt. Þú getur ekki metið neitt annað. Það gildir reyndar fyrir mitt hús líka þar sem ég bý uppi í Árbæ. Ég veit ekki annað í dag en að ég greiði iðgjald miðað við brunabótamat og ég veit ekki hvað gerist á morgun eða eftir tvö, þrjú eða fimm ár, hvers virði mitt hús er. Þá finnst mér lágmarkskrafa ef þetta er samþykkt að það sé metið á hverjum tíma af hálfu vátryggingafélaganna þannig að fólk borgi ekki hærra iðgjald en sem nemur því sem það á rétt á ef upp kemur.
    Þetta er atriði sem ég get ekki séð í frv. og mér finnst sem ég geti ekki staðið að samþykkt frv. sem þessa nema þetta sé a.m.k. algerlega á hreinu.
    Ég vildi spyrja hvort nefndin hafi ekki tekið þetta til athugunar vegna þess að ég get ekki séð það í nál. Ef það hefur ekki verið gert þá finnst mér eðlilegt að þetta sé skoðað og málið sé ekki tekið til endanlegrar afgreiðslu fyrr en þetta liggi ljóst fyrir þannig að þingmenn hafi a.m.k. hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja og að fólk sem er að brunatryggja viti hvar það stendur. Það er lágmarkskrafa að við séum ekki að samþykkja eitthvað sem við vitum ekki hvað hefur í för með sér. Og ég er fyrst og fremst að hugsa um fólk úti á landsbyggðinni. Ég hugsa að fyrir okkur sem búum í Reykjavík sé þetta miklu minna mál, að brunabótamatið sé miklu nær markaðsverði en t.d. víða úti á landi.