Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 13:49:39 (2873)


[13:49]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Kinnroðalaust, hv. þm., styð ég þessa brtt. nefndarinnar. Það hafa komið fram ágætisrök hjá formanni hennar, hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, og málið er einfaldlega að þessi ákvæði í hlutafélagalögunum eru orðin meira og minna akademísk og óþörf og þar að auki skapa þau viss vandræði þegar fjöldi hluthafa rokkar upp og niður fyrir þau mörk sem þarna eiga í hlut þannig að líklega hefði verið best að fella ákvæðin algjörlega úr lögunum. En fyrst þau eru þarna mega þau standa óbreytt frá því sem er í gildandi lögum og ekki ástæða til að breyta því. Ég hygg að við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson getum alveg tekið undir og stutt allar þær breytingar í frjálsræðisátt sem ég sé að honum er svo annt um og koma fram í þessum lögum og mörgum öðrum sem verða til umfjöllunar á hinu háa Alþingi.