Afgreiðsla þingmála fyrir jólahlé

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:17:09 (2885)

[15:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérkennileg umræða sem fer núna fram um störf þingsins því að í þetta skipti getur hæstv. ríkisstjórn ekki kennt stjórnarandstöðunni um það að hún hafi haldið uppi einhverju málþófi og tafið mál fyrir þinghlé. Málin eru svo seint fram komin og það er m.a. vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um málin, m.a. vegna þess að ráðherrar hafa ekki verið við, þeir hafa verið í ferðalögum út um allan heim, samanber hæstv. forsrh., utanrrh. og nú heilbrrh., og þar af leiðandi er ekki búið að ákveða hvernig afgreiðslu mála verður háttað.
    Ég get nefnt að í fjárln. vorum við í viðbragðsstöðu alla helgina, tilbúin að mæta á fund nánast hvenær sólarhringsins sem var, en það var bara ekki hægt vegna þess að meiri hlutinn og ríkisstjórnin hafði ekki komið sér saman um málin. Mér sýnist ljóst að það verður mjög erfitt að ljúka þinghaldi núna fyrir jól og væri miklu eðlilegra að gera hlé á störfum þingsins mjög fljótlega. Ég minni á að samkvæmt dagskrá þingsins áttum við að hætta störfum á laugardaginn var og það er komið fram yfir þann tíma. Ég held að það væri miklu eðlilegra að gefa nú jólahlé og sjá til hvort ríkisstjórnin og þeir samstarfsflokkar sem þar eru að vinna saman mundu nú ekki láta jólaboðskapinn hafa svolítil áhrif á sig svo þeir næðu nú aðeins saman fyrir jólin og þá geti þetta gengið vel á milli jóla og nýárs.