Afgreiðsla þingmála fyrir jólahlé

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:18:52 (2886)



[15:18]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þingstörfin eru dálítið sérkennileg núna. Tekjuhlið fjárlaga hefur ekkert verið rædd í fjárln. enn þá, fulltrúar fjmrn. hafa ekki komið enn þá til að skýra fjárln. frá tekjuhliðinni, efh.- og viðskn. á að skila áliti um tekjuhliðina í dag og hún er ekki búin að fjalla um þau skattafrumvörp sem liggja fyrir nefndinni. Þetta er ekki hv. nefndarmönnum að kenna. Þetta er fyrir það að stjórnarkerran, ef svo má segja, er pikkföst og hefur verið pikkföst í rúmlega viku. Hæstv. forsrh. kom í salinn en hann er á leið út aftur og hann er sjálfsagt eins og vörubílstjórinn í Kristnihaldi undir Jökli sem var lagstur undir kerruna að morgni dags og farinn að mixa. ( Fjmrh.: Við erum að ljúka þessu.) Ég hygg að hæstv. forsrh. sé nú að mixa og ég held að það sé best að bíða eftir því að þessi kerra komist í lag og hún komist upp úr pyttinum sem hún er í núna.