Afgreiðsla þingmála fyrir jólahlé

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:24:42 (2890)



[15:24]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það hefur komið fram í umræðunni að frú forseti ætlar að efna til fundar með formönnum þingflokka og hæstv. fjmrh. er að vona að formönnum þingflokka takist að komast að samkomulagi á þessum fundi. Það er auðvitað mjög huggulegt fyrir formenn þingflokka að hitta frú forseta. En það er alveg gersamlega þýðingarlaust að vera að efna til fundar með þeim í þessari stöðu. Frú forseti ætti að efna til fundar með forsrh. og utanrrh. Það eru þeir sem halda öllu föstu. Það eru þeir sem bera ábyrgð á því að þingið er búið að vera verklaust í marga daga vegna þess að flokkar þeirra, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kemur sér ekki saman, hún klárar ekki sína heimavinnu. Það er það sem er að. Það tefur þingstörfin. Ef frú forseti getur fengið niðurstöðu hjá þessum mönnum, hæstv. ráðherrum, er hægt að taka málin til umræðu á þingi og afgreiða þau eða fella eftir atvikum.