Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:48:52 (2893)



[15:48]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. og frsm. Geir H. Haarde ítarlega framsögu fyrir þessu máli og jafnframt þakka honum samstarf á fyrri stigum við undirbúning þess.
    Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er ekki stór bók en hún er merkilegt ritverk. Hún setur með nokkrum hætti ramma um líf okkar, hún setur skorður um breytni, setur stjórnvöldum hömlur og leggur löggjafanum starfsreglur. Ég tel að okkur beri að hafa stjórnarskrána í heiðri og virða hana í hvívetna.
    Breytingar á stjórnarskrá þarfnast mjög vandaðs undirbúnings og þar má ekki hrapa að neinu. Í okkar reglum er það að breytingar á stjórnarskrá þarfnast þess að vera samþykktar á tveimur þingum og fari fram kosningar á milli þannig að raunverulega gengur breytingin á stjórnarskránni með óbeinum hætti undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta tel ég rétt að hafa í heiðri. Það má ekki vera það auðvelt að breyta stjórnarskrá, svo miklum grundvallarlögum sem hér er um að ræða, að það freisti ákafamanna í valdabaráttu eða fljótræði.
    Hér er til umræðu svokallaður mannréttindakafli stjórnarskrár, þ.e. VII. kafli stjórnarskrárinnar. Nú er það svo að við höfum búið við mannréttindi hér á Íslandi. Það má enginn skilja það svo að þau séu ófullkomin og ég er ekki sammála því sem fram kom hjá hv. frsm. að orðalagið væri fornt og hugsunin gamaldags í þeim ákvæðum sem standa í gildandi stjórnarskrá um þetta efni. Ég held að þau séu auðskiljanleg og orðuð með viðunandi hætti. Þessi mannréttindaákvæði sem við höfum búið við í gildandi stjórnarskrá hafa að flestu leyti skapað góð skilyrði fyrir borgarana og þar fyrir utan er svo guði fyrir að þakka að siðferðiskennd okkar flestra býður okkur að fara eftir skráðum eða óskráðum reglum um þetta efni.
    En þrátt fyrir viturleg ákvæði í stjórnarskrá hafa komið fram athugasemdir við einstaka ákvæði og þetta frv. er tilraun til þess að bæta þar úr eða skýra nánar einstök ákvæði. Um þetta var eins og menn muna ályktað á hátíðarfundi á Þingvöllum 17. júní 1994.
    Í 1. og 2. gr. er nokkuð breytt orðalag frá gildandi stjórnarskrá og ég tel að það sé til bóta en hv. frsm. er búinn fara svo nákvæmlega yfir þær breytingar sem gerðar eru á frv. að ég sleppi því að mestu leyti. Mjög mikilvæg í þessu frv. er jafnréttis- eða jafnræðisreglan. Hún á að vera leiðarljós í löggjöfinni og það er mjög mikilvægt.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að 65. gr., upphafsgreinin, verði svohljóðandi:
    ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``
    Þessu er ég mjög sammála. Hitt er svo annað mál að þetta gefur manni tilefni til að velta vöngum yfir ýmsum atriðum í löggjöf okkar. Á dagskrá þessa fundar man ég ekki betur heldur en sé t.d. ný lagasetning um brunamál. Í því frv. sem gert er ráð fyrir að afgreitt verði í dag er kannski ekki farið alveg nákvæmlega eftir þessari jafnréttisreglu. Það er ekki sama hvar maður missir eign sína í eldi, það er ekki sama samkvæmt þessu. Ef hann missir hana í sveitarfélagi eða á stað þar sem fasteignamat er lágt, þá fær hann ekki bætur með sama hætti eins og ef hann yrði fyrir tjóni þar sem fasteignaverð er hátt. Þetta gefur manni tilefni til verulegrar umhugsunar. Þó að um sams konar eign sé að ræða þá eru menn ekki jafnsettir til bóta. Nóg um það, frú forseti. En ég vek athygli á þessu þar sem þetta ber upp á sama daginn, þessar tvær afgreiðslur. Bótarétturinn er sem sagt samkvæmt því frv. sem við væntanlega samþykkjum hér síðar í dag misjafnt eftir því hvar menn búa.
    Það er mjög mikilvægur kafli í þessu frv. sem varðar frelsissviptingu, friðhelgi einkalífs, friðhelgi eignarréttar. Í 10. gr. frv. segir í seinni mgr.:
    ,,Með lögum má takmarka rétt annarra en íslenskra ríkisborgara til að eignast fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.``
    Hér er um að ræða nýmæli. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé fullkomið orðalag. Ég tel að nefndin sem fær málið til meðferðar þurfi að velta því fyrir sér hvort þessi málsgrein sé nákvæmlega rétt orðuð. Mér finnst að það gæti komið til greina að orða hana eitthvað á þann hátt: ,,Með lögum má takmarka rétt annarra en íslenskra ríkisborgara til að eiga eða eignast fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.``
    Nú getur það verið þannig að íslenskur ríkisborgari eignist eign hér á landi en flytji síðan úr landi og gerist e.t.v. ríkisborgari í öðru landi, þá finnst mér að það eigi að gilda það sama um eignarhaldið og ef erlendur ríkisborgari væri að eignast fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki. Þetta legg ég hér inn í þessa umræðu hv. þm. til umhugsunar.
    Í þessu frv. er samhjálparhugsun og það tel ég mjög mikilvægt. Ég vitna sérstaklega til 14. gr. frv. og ég tel að það sé mikilvægt að við höfum það í huga í okkar grundvallarlögum að við komum hvert öðru við og berum með vissum hætti ábyrgð hvert á öðru. Svo best verður hér siðað samfélag að menn hafi þetta ætíð í minni. Ég tel að það sé til bóta að banna afturvirkni skatta og skýra nokkuð rétt sveitarfélaga.
    Ég tel, frú forseti, að við samningu þessa frv. hafi yfirleitt ráðið góðviljuð hugsun og réttlætiskennd, hugsun samhjálpar og samvinnu og þar af leiðir að ég tel að það sé fengur að því að breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem hér er lagt til.