Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 16:25:03 (2898)



[16:25]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það sem hv. þm. sagði hér. Það er alveg hárrétt sem hann sagði, að þannig er það að þetta þarf fyrst og fremst að vera skilgreint í lögum. Ég vildi bara fá að bæta því við til skýringar að meginbreytingin frá núverandi löggjöf yrði þá sú að það væri skýrt tekið fram í stjórnarskránni að það væri ekki hægt að skylda menn til aðildar að félagi með t.d. útgáfu reglugerðar af hálfu ráðherra. Það hefur hins vegar komið fyrir og það var einmitt það sem gerðist í hinu fræga

Framamáli, sem var vísað til Mannréttindadómstólsins, að skylduaðildin byggðist á reglugerðarákvæði. Það var reyndar fleira sem þar kom við sögu að sjálfsögðu, málið var flóknara en það. En ég vildi fyrst og fremst koma því á framfæri að ég skil málið þannig að þessi skilgreining á skylduaðild felur það í sér að það er ekki lengur hægt að leyfa eða kveða á um skylduaðild að félagi eingöngu í reglugerð heldur verður Alþingi að fjalla um það með lögum og skilgreina til hvers það er gert og hvert er hlutverk lagasetningarinnar.