Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 16:26:53 (2899)



[16:26]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frá því að sögur hófust eru þekkt dæmi um fólk sem ekki sættir sig við valdníðslu, ríkjandi gildismat og þær skorður sem lög og reglur settu mannlífinu. Þrællinn Spartakus, Jesús frá Nazaret, Jóhanna af Örk, Jóhann Húss og fleiri og fleiri fyrr á öldum gerðust boðberar nýrra hugmynda eða foringjar þeirra sem mótmæltu og urðu að gjalda fyrir með lífi sínu.
    Það var ekki fyrr en á síðari hluta 17. aldar og í upphafi hinnar 18. sem andans menn og heimspekingar í Englandi og Frakklandi settu á blað nýjan skilning á uppruna valdsins og rétti einstaklinganna. Skilning sem átti nokkra samsvörun við hugmyndir hinna fornu Grikkja í Aþenu. Það var svo komið í Evrópu að konungar, keisarar, aðall og klerkar, sem þóttust hafa vald sitt frá guði, höfðu sölsað undir sig miklar eignir sem sumar hverjar höfðu áður talist til almenninga. Þeir réðu skattlagningu, dómstólum og löggjöf, nutu skattfrelsis og höfðu forgang til allra embætta og menntunar. Forréttindaaðallinn hafi vald til að senda blóma ungra karlmanna í hverja styrjöldina á fætur annarri þar sem gífurlegt mannfall átti sér stað vegna fáránlegrar herstjórnar sem ekkert tillit tók til nýrra vopna og mannslífa. Þeir sem í Frakklandi kölluðust fyrsta og önnur stétt lifðu í vellystingum praktuglega og stóðu öllum framförum fyrir þrifum. Almenningur var réttindalaus og gamalgróin þing sem rætur áttu að rekja til miðalda voru nánast valdalaus. Réttur einstaklinganna til að tjá skoðanir sem ekki féllu valdhöfum í geð var lítill sem enginn, hvort sem í hlut áttu kirkja eða konungar. Menn gátu ekki sótt rétt sinn fyrir dómstólum, allt vald var í höndum þeirra sem ríktu í krafti arfs og titla í skjóli hervalds. Pyndingum og líflátum var miskunnarlaust beitt, jafnt gegn eigin þegnum sem svokölluðum óvinum.
    Styrjaldir, skattpíning, ríkisskuldir og misrétti skapaði smátt og smátt þá óánægju og valdabaráttu sem leiddi til aftöku Karls konungs I. í Englandi árið 1649. Í kjölfar hennar og þess umróts sem á eftir fylgdi setti heimspekingurinn John Locke fram hugmyndir sínar um náttúruréttinn, rétt hvers manns til frelsis, lífs og eigna sem felur í sér takmörkun á rétti valdhafa til að ráðskast með einstaklingana. Franski heimspekingurinn Montesquieu benti á hættuna sem fylgt getur samþjöppun ríkisvaldsins og hann setti fram kenninguna um þrígreiningu ríkisvaldsins í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald þar sem hvert valdsvið hefði eftirlit með öðru og tryggði þannig að vald væri ekki misnotað í þágu ákveðinna hópa. Loks setti Frakkinn Rousseau fram hugmyndina um þjóðfélagssáttmálann sem segir að í gildi sé óskráður sáttmáli milli stjórnvalda og fólksins. Valdið kemur frá fólkinu og almannahagur skal hafður að leiðarljósi við stjórnun samfélagsins. Brjóti stjórnendur sáttmálann sé það réttur þjóðarinnar að losa sig við vonda stjórnendur eða hinn svokallaði uppreisnarréttur, ,,usus rebellionis``. Hér má bæta við hugmynd enska heimspekingsins Benthams þess efnis að hlutverk löggjafans sé að tryggja sem mesta hamingju fyrir sem flesta einstaklinga.
    Allar þessar hugmyndir eru skjalfestar í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna frá 1776 og stjórnarskránni sem fylgdi í kjölfarið, svo og yfirlýsingum og stjórnarskrám frönsku byltingarinnar frá tímabilinu 1789--1793. Allir menn eru bornir frjálsir og þeir skulu njóta skilgreindra mannréttinda er inntak þessara merku yfirlýsinga sem samdar voru fyrir rúmum 200 árum og stjórnarskrár og mannréttindasáttmálar nútímans byggjast á.
    En mannréttindaskilningurinn var sérkennilegur, bæði í Bandaríkjunum og Frakklandi á þessum miklu umrótatímum eins og reyndar bæði fyrr og síðar. Hver taldist maður og hverjir áttu að njóta réttinda? Bandaríkin voru þrælasamfélag og á meðan verið var að semja stjórnarskrána var hart deilt um það hvort þrælarnir skyldu taldir til íbúa hins nýja ríkis. Það skipti miklu máli vegna skiptingar þingsæta í fulltrúadeildinni á milli fylkja. Mannréttindin voru fyrst og fremst bundin við hvíta karlmenn sem áttu eignir. Fátæklingar og konur nutu takmarkaðra réttinda, mannréttindi komu þeim lítið við og tók næstu 150 árin að leiðrétta þann skilning. Í Frakklandi var gengið lengra. Þar náðu mannréttindi til meginþorra karlmanna, en þegar kvennahreyfing frönsku byltingarinnar setti fram mannréttindayfirlýsingu kvenna 1791 voru forustukonurnar handteknar og settar undir fallöxina.
    Þessar gömlu stjórnarskrár og sú uppreisn sem í þeim fólst gegn ríkjandi þjóðfélagskerfum markaði tímamót í sögu Vesturlanda. En gagnvart einstaklingunum sem þau áttu að verja höfðu þær mismunandi merkingu. Þær reyndust þó síðar meir þau vopn sem dugðu í mannréttindabaráttu jafnt svartra manna sem kvenna og hinna fátæku. Þannig geta stjórnarskrár verið innantóm orð ef hugsunin á bak við þær er ekki sú að tryggja rétt allra eða ef samfélagið ræður ekki yfir tækjum til þess að tryggja framkvæmdina.
    Í Sovétríkjunum var samþykkt þessi líka fína stjórnarskrá árið 1936 á tíma Stalíns sem í orði tryggði allt milli himins og jarðar en í verki var hún ekki pappírsins virði. Því miður er sömu sögu að segja um mörg ríki heims sem á undanförnum áratugum hafa undirritað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sáttmálann um afnám alls misréttis gegn konum og barnasáttmálann auk mannréttindasáttmála Evrópuráðsins en einmitt þessa dagana vekur virðingarleysi tyrkneskra dómstóla fyrir skoðanafrelsi þingmanna af kúrdískum uppruna hneykslan víða um heim.
    Samkvæmt skýrslum Amnesty International eru gróf mannréttindabrot nú framin í 152 ríkjum heims en sem betur fer er Ísland ekki að finna á þeirri skrá.
    Virðulegi forseti. Það er erfitt að tímasetja upphaf mannréttindaumræðu á Íslandi og að hvaða marki slíkar hugmyndir voru til umræðu áður en Baldvin Einarsson setti kröfu á blað upp úr 1830 en svo mikið er víst að umrótið í Danmörku 1848 og danska stjórnarskráin, grundloven, sem gekk í gildi 5. júní 1849 kom mikilli hreyfingu á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Í kjölfarið setti sjálfstæðishreyfingin fram kröfur um að ná hinu þrískipta valdi inn í landið jafnframt kröfum um prentfrelsi og fundafrelsi. Danir höfnuðu kröfum Íslendinga að sinni en þar kom að árið 1874 að Kristján konungur IX. heimsótti landið með stjórnarskrá fyrir Ísland í farteskinu. Þar með kom löggjafarvaldið, fjárveitingavaldið og skattlagningavaldið í landið, reyndar með þeim annmörkum að samþykki konungs þurfti til að lög öðluðust gildi. Í fyrsta sinn var kveðið á um trúfrelsi, prentfrelsi og ýmis önnur mannréttindi í íslenskum lögum, mannréttindi í anda bandarísku og frönsku stjórnarskrárinnar.
    Það hefur eflaust verið hátíðleg stund á Þingvöllum þegar stjórnarskráin var kynnt 1874 rétt eins og það var hátíðlegt í rigningunni 1944 þegar henni var breytt í þá veru að afnema með öllu áhrif hins danska konungsvalds sem hér hafði ríkt um aldir. Eins var það hátíðleg stund 17. júní í sumar, rétt eftir að svanirnir flugu sitt oddaflug yfir völlunum við Öxará, að samþykkja endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem flest hver hafa staðið óbreytt frá því að Kristján konungur IX. kom með ,,frelsisskrá í föðurhendi`` eins og þjóðskáldið Matthías Jochumsson komst að orði í kvæði af því tilefni.
    Virðulegi forseti. Endurskoðuninni er nú lokið að öðru leyti en því sem kann að gerast í stjórnarskrárnefnd Alþingis og ég hygg að við sem komið höfum að verkinu séum harla ánægð. Ég get tekið undir með 1. flm. frv. til stjórnarskipunarlaga á þskj. 389 sem sagði að þetta frv. yrði sennilega með merkari málum þessa kjörtímabils. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er verið að treysta stöðu einstaklinganna gagnvart valdhöfum, það er verið að binda í lög reglur sem gilt hafa í raun og það er verið að leiða í lög ný ákvæði í samræmi við þá alþjóðlegu mannréttindasáttmála sem við erum aðilar að. Ég vil nú gera grein fyrir þeim nýmælum sem ég tel einna merkust í þeim breytingum sem lagðar eru til á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, en frsm. gerði ítarlega grein fyrir þeim breytingum sem frv. felur í sér.
    Ég vil þá fyrst nefna 1. gr. þessa frv. þar sem kveðið er á um trúfrelsi og verið að færa þessa grein til nútímahorfs í samræmi við það sem gerst hefur í trúarmálum á undanförnum árum.
    Í 2. gr. er kveðið á um það að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna né heldur megi nokkur fyrir þá sök skorast undan þegnskyldu. Ég hef nokkuð velt því fyrir mér, virðulegi forseti, hvað þetta þýðir og hvað menn eiga við með þegnskyldu en eftir því sem ég best veit er ekki mikið um það að Íslendingar séu kallaðir til til að sinna þegnskyldu. Ég held að nefndin þurfi aðeins að velta fyrir sér hvað í þessu felst.
    Í sömu grein er ákvæði sem haldið er í stjórnarskránni þess efnis að þeir sem eru utan trúfélaga skuli greiða gjald til Háskóla Íslands. Þetta ákvæði er auðvitað barn síns tíma og nefndin þarf að velta því fyrir sér hvort það beri að gera einhverja breytingu á þessu ákvæði. En mikilvægasta grein þessa frv. er 3. gr. þar sem kveðið er á um að allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis o.s.frv. Hér þarf einnig að athuga hvort það beri að telja upp fleiri atriði, en vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Ragnars Arnalds þegar hann nefndi fötlun þá eru ákaflega skiptar skoðanir um það meðal þeirra sem sinna málefnum fatlaðra hvort það sé rétt að vera að telja þá sérstaklega með, hvort þeir eru ekki einfaldlega meðal allra þeirra sem skuli vera jafnir fyrir lögum. Ég lít svo á að þessi grein kveði á um jafnan rétt og hún feli ekki sér að einhvers konar jákvæð mismunun, eins og það hefur verið kallað, sé bönnuð, þ.e. ákvæði sem kveða á um það að jöfnum rétti skuli náð.
    Ég vil þá víkja aðeins að 6. gr. frv. Hér í milli er kveðið á um rétt manna sem sviptir eru frelsi og hvernig með þau mál skuli farið. Vil ég reyndar nefna að í 5. gr. er nýtt ákvæði sem kveður á um að hafi menn verið sviptir frelsi að ósekju skuli þeir eiga rétt til skaðabóta.
    Í 6. gr. er um mjög mikilvæg atriði að ræða þar sem verið er að vísa til ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar og ég lít svo á að í þessari grein felist m.a. hvers kyns bann við pyndingum. Svo og er kveðið á um bann við nauðungarvinnu. Þessi ákvæði eru í samræmi við alþjóðlega sáttmála.
    Í 7. gr. er vert að nefna það, sem ég vil lýsa sérstakri ánægju yfir og ég held að verði okkur Íslendingum til mikils sóma, að kveðið er á um það að í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu. Ég vil geta þess hér að fyrir tilviljun lenti ég á fundi úti í garði í Bandaríkjunum þar sem hópur fólks var að ræða aðgerðir til þess að afnema dauðarefsingu í Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum en dauðarefsingar eru þar afar umdeilt mál. Þegar ég sagði þeim að dauðarefsingu hefði ekki verið beitt á Íslandi frá 1830 þá vakti það mikla athygli og menn sögðu að þarna væri greinilega siðmenntuð þjóð á ferð. Ég held að þetta ákvæði í íslensku stjórnarskránni geti reynst öðrum stuðningur í baráttu gegn dauðarefsingu.
    Varðandi 9. gr. vil ég taka undir það sem fram kom í máli frsm. að hér er um mjög mikilvæga grein að ræða þar sem kveðið er á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu en það sem segir síðar í

greininni felur í sér að ekki er allt leyfilegt innan veggja heimilisins og að með sérstökum lagaheimildum er heimilt að grípa inn í ef verið er að brjóta réttindi á öðrum.
    Þá er að nefna 11. gr. þar sem kveðið er á um skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Þar er jafnframt um takmarkandi ákvæði að ræða sem felur það í sér að löggjafinn getur gripið inn í ef um háttsemi er að ræða sem brýtur í bága við siðgæði eða annað sem mönnum líkar illa. Þetta ákvæði minnir okkur á umræðu sem átti sér stað úti í Svíþjóð þar sem menn sögðu að ákvæði sænsku stjórnarskrárinnar kæmu í veg fyrir að hægt væri að banna barnaklám og ofbeldismyndir sem sannanlega væru samfélaginu skaðlegar.
    Ég ætla ekki að fara út í umræðu um félagafrelsið. Ég hygg að menn muni þurfa að skoða þá grein mjög vandlega og hvort við höfum fundið hið rétta orðalag en ég held að það hafi verið nauðsynlegt að kveða á um þetta í íslenskum lögum í samræmi við alþjóðlega sáttmála og hér sé verið að fara þá leið að þau félög sem hafa lögmæltu hlutverki að gegna geti skyldað þá sem undir þau heyra til aðildar.
    Í 14. gr. er líka afar merkilegt ákvæði sem ég hygg að sé ekki að finna í mörgum stjórnarskrám en á rætur að rekja til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt og merkilegt að í íslensku stjórnarskránni skuli vera minnst sérstaklega á börn og réttindi barna, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.`` Á grundvelli þessa ætti að vera hægt að búa vel að börnum en auk þessa höfum við samþykkt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram að það eru einstök atriði í þessu frv. sem nefndin þarf að skoða sérstaklega. Jafnframt tek ég undir að það er nauðsynlegt að þetta frv. fái ítarlega og góða umfjöllun úti í þjóðfélaginu. Það er ástæðan fyrir því að þeir sem unnu að frv. reyndu að hraða þeirri vinnu svo sem kostur er til þess að unnt mætti vera að koma málinu til umræðu út í þjóðfélagið.
    Það eru ýmis ákvæði önnur í stjórnarskránni sem vert hefði verið að athuga og ég nefni þar sérstaklega ákvæði um þjóðaratkvæði og jafnframt vil ég minnast á þær tvær greinar sem ákveðið var að gera tillögu um að fella út úr stjórnarskránni. Ég hef ekki sömu skoðun á þessum málum. Mér finnst viss missir að 78. gr. þar sem kveðið er á um sérréttindi. Þó 3. gr. nái yfir þetta þá er það skemmtilegt í íslenskum lögum að kveðið skuli á um að sérréttindi séu bönnuð og er nú forvitnilegt gagnvart öðrum þjóðum sem tíðka mjög titlatog og ýmis heiti á mönnum sem eiga sér gamlar rætur en það verður að teljast afar ólíklegt að nokkrum manni skuli detta í hug að leiða slíkt í lög hér að taka upp hertogadæmi eða greifadæmi eða eitthvað slíkt þannig að ég held að 3. gr. nái yfir þetta. Hins vegar er ég afar fylgjandi því og vann reyndar mjög að því að fella niður 75. gr. um að sérhver vopnfær maður sé skyldur til þess að taka þátt í vörn landsins eftir því sem nákvæmar kann að vera mælt fyrir um með lögum. Ég tel þessa grein úrelta og að hún eigi ekki við þar sem um vopnlausa þjóð er að ræða. Jafnframt hef ég ýmsar efasemdir varðandi þetta mál þar sem ýmsar þjóðir hafa verið að leiða í lög réttindi manna til þess að víkja frá herskyldu, m.a. af trúarástæðum eða samviskuástæðum. Ég held að það sé okkur til sóma að afnema þetta þó að, eins og fram kemur í greinargerð, ekkert mæli gegn því að ef nauðsyn krefur þá yrði hægt að koma upp einhvers konar vörnum en þessi grein er ekki í samræmi við nútímavopnabúnað.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja það að ég tel að hér sé um afar mikilvæga og merkilega löggjöf að ræða. Það er von mín að það náist góð samstaða um afgreiðslu málsins fyrir þinglok því að nái þessar breytingar á stjórnarskránni fram að ganga þá felst í þeim merk réttarbót sem tryggir mannréttindi betur en áður og færir samfélag okkar nær stjórnarháttum sem fela í sér jafnan rétt þjóðfélagsþegnanna.