Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 17:20:15 (2902)



[17:20]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni afar þýðingarmikið málefni og það hefur oft verið minna tilefni til umræðu á hv. Alþingi Íslendinga en um þetta efni sem varðar stjórnarskrána og þann grundvöll sem hún veitir. Og þó að hér sé aðeins verið að leggja til breytingar á tilteknum köflum stjórnarskrárinnar en ekki á stjórnarskránni í heild sinni þá er hér vikið að mjög merkum atriðum og undir eru tveir kaflar í stjórnarskrá okkar, sá VI. og VII., sem farið hefur verið yfir í heild.
    Eins og aðrir hér á hv. Alþingi sem hafa tjáð sig hér í umræðunni geri ég ráð fyrir að flutningur málsins á vegum allra þingflokka endurspegli það, ánægður með það verk sem hér liggur fyrir, þ.e. að það skuli hafa tekist að leggja fyrir Alþingi tillögur sem samstaða hefur tekist um. Það felur að sjálfsögðu ekki í sér að menn sjái hér allar þær áherslur sem hver og einn hefði viljað, hvorki hver og einstakur þingflokkur hvað þá einstakir alþingismenn, heldur er hér um samstöðumál að ræða að ræða af hálfu þingsins í heild sinni sem þó á eftir að fá meðferð í sérstakri þingnefnd og þannig hugsanlega taka nokkrum breytingum í frekari málsmeðferð í þinginu. Það hefur oft verið lýst eftir því að þörf sé á að endurskoða stjórnarskrána og þar á meðal þá kafla sem hér eru undir og því eru þetta ákveðin þáttaskil á nokkuð löngum ferli að hér liggja þessar tillögur fyrir.
    Ég tel að greinargerð sem fylgir með þessum tillögum sé gagnmerk og mjög þarfleg og þörf lesning fyrir þá sem fjalla um málið og reyndar almenning einnig og það tengist þörfinni á að kynna þetta mál fyrir almenningi og skapa umræðu um þessi efni. Ég vil m.a. vekja athygli á þeim miklu álitamálum sem tengjast annars vegar hinum borgaralegu og stjórnmálalegu réttindum sem eru grunnurinn í mannréttindayfirlýsingum sem stjórnarskrár margra Evrópuríkja sækja sitt til og eru byggðar á og hins vegar spurningunni um hin efnahagslegu réttindi þegnanna sem eru af öðrum toga og eru heldur að sækja á við þessa endurskoðun hér. Þó að það sé að finna í gildandi stjórnarskrá ákveðin atriði sem varða hin efnahagslegu réttindi, þá er verið að styrkja þau hér með þeim breytingum sem lagðar eru til. Það eru kannski álitaefnin sem snerta þetta, annars vegar afskiptaleysi ríkisvaldsins sem varðar hið fyrra, þ.e. hin borgaralegu og stjórnarfarslegu réttindi sem af mörgum er talið að megi helst ná fram með afskiptaleysi ríkisins og auðvitað er það afar þýðingarmikið að ríkið seilist ekki um of inn á vettvang einstaklingsins og ekki lengra en þörf er talin á og almennt sammæli er um en til þess að ná hinum efnahagslegu markmiðum, jafnréttismarkmiðum sem við stundum köllum svo, þá verður stundum ekki hjá því komist að hið almenna félag, ríkið, hlutist til um málefni þegnanna. Þar komum við inn á kjarna að baki hinni pólitísku umræðu hérlendis og víða um heim hversu langt á að seilast, hversu sterkt á ríkið að vera í þessum efnum, hversu langt á að ganga í að reyna að tryggja hið efnahagslega jafnræði meðal þegnanna. Og þó að hér sé um að ræða í tilteknum greinum, þar á meðal í 14. gr., að verið sé að auka við ákveðna þætti sem lúta að hinum efnahagslega þætti og möguleikum á að jafna þar á milli þegnanna, þá er það nú engan veginn svo að það sé hinn rauði þráður í þróun samtímans þegar litið er til Evrópu og reyndar um heim allan að það sé verið að tryggja það með löggjöf eða samningum, þar á meðal alþjóðasamningum, að efnahagslegur jöfnuður sé einhver allsherjarmælikvarði eða almennur mælikvarði.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að fara langt út í þau efni hér í umræðunni en vek bara athygli á þessu viðfangsefni og þessum kjarna að baki þeirrar endurskoðunar og þeirra þátta stjórnarskrárinnar sem hér er um rætt, annars vegar það sem lýtur að hinum almennu borgaralegu réttindum og hins vegar að hinu efnahagslega jafnræði.
    Ég neita því ekki að ég hefði viljað sjá gengið mun lengra í mörgum atriðum að því er varðar hið efnahagslega jafnræði og að því hefur verið vikið hér í umræðunni áður og að fram hafi komið tillögur sem ganga lengra í þá átt við tilraunir til að endurskoða stjórnarskrána á fyrri stigum. Hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, fór nokkuð inn á þau efni að rekja tillögur sem lágu fyrir 1982 sem afurð frá stjórnarskrárnefnd þáverandi til þess að taka inn nýja þætti sem að mínu mati hefðu átt erindi inn í stjórnarskrána eins og varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu, um náttúruauðlindir landsins, að því verði slegið föstu að þær væru í þjóðareign og eins varðandi náttúruvernd eða umhverfisvernd og útivist sem þar var gerð sérstök grein fyrir af hálfu stjórnarskrárnefndar á þeim tíma. Því miður er þessi ákvæði ekki að finna í þessum sameiginlega texta frá fulltrúum þingflokkanna en það verður þá væntanlega viðfangsefni framtíðarinnar því að engin gerð er þannig að hún fái staðist til mjög langs tíma ef vel á að vera og það fer eftir almennri þróun auðvitað hvað verður sammæli um að taka inn í stjórnarskrá viðkomandi lands.

    Ég held t.d., virðulegur forseti, að það sem snýr að verndun umhverfis eigi eftir að sækja á vegna þess hversu takmarkandi spjöll á umhverfi eru fyrir einstaklinginn og hve rík nauðsyn er á að vernda umhverfið og kveða þar skýrt á og reyna að ná þar sammæli bæði innan þjóðlanda og eins á alþjóðlegum vettvangi. Og sú hugmynd sem uppi var 1982 um þessi efni var mjög góðra gjalda verð.
    Ég held líka, virðulegi forseti, að það eigi eftir að koma þótt síðar verði til frekari umfjöllunar spurningin ekki aðeins það sem er að finna hér í 13. gr. tillagnanna að því er snertir réttinn til að stunda atvinnu þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.
    Rétti manna varðandi vinnu og orlof skal skipað með lögum.``
    Þetta er efni 13. gr. Hér er verið að slá því föstu að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa og skipa í réttindi varðandi vinnu með lögum. En það er ekki fjallað um það sívaxandi vandamál nútímasamfélags að tryggja öllum atvinnu, tryggja öllum réttinn til atvinnu sem mér er ekki kunnugt um að hafi verið tekið upp í stjórnarskrár Evrópuríkja. En ég vek hins vegar athygli á því að í atvinnuleysinu, hinu sívaxandi böli í hinum svokölluðu þróuðu ríkjum heimsins er kannski að finna eina sárustu mismununina í okkar samfélög og sem ekki sér fyrir endann á miðað við það gangverk sem okkar samfélög fylgja og ekki hefur tekist að finna lausn á og enginn kann í rauninni nein algild svör við hvernig eigi við að bregðast. En mér kæmi það ekki á óvart þó að þetta vandamál sem er rætt í auknum mæli vegna þess að það er að verða sífellt stærra, þ.e. atvinnuleysið, yrði viðfangsefni. Vonandi verður það viðfangsefni einnig við setningu stjórnarskrár í framtíðinni. Á því væri þörf.
    Enn eitt atriði sem ekkert er á minnst hér en er hins vegar farið að vekja spurningar sem hljóta að tengjast grundvallarsáttmálum. Það er spurningin um hversu langt eigi að ganga tæknilega séð gagnvart lífverum, þar á meðal gagnvart manninum sjálfum, spurningin um erfðabreytingar þar sem Alþingi Íslendinga hefur því miður afskaplega lítið farið inn á að reyna að móta reglur um þau flóknu efni þó að það hafi aðeins verið gert í tilteknum greinum í sambandi við svokallaðar glasafrjóvgangir, svo nefnt sé dæmi um slíkar aðgerðir. En ég er kannski meira að vísa til þess sem varðar bein inngrip í grundvöll lífs með breytingum á erfðaeigindum. Þarna er stórt svið sem varðar grundvallarréttindi og grundvallarreglu sem þörf væri á að taka í okkar grundvallarsáttmála, siðferðilegar spurningar sem er óhjákvæmilegt að leitað verði svara við fyrr en seinna og ég tel að þar séu menn í rauninni staddir á mikilli hættuslóð í því efni.
    Ég ætla, virðulegur forseti, að víkja aðeins að fáeinum greinum sem ég vildi koma að við 1. umr. málsins og snúa mér að því. Varðandi 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um borgaraleg og þjóðleg réttindi þá er að því vikið að enginn megi undanskorast þegnskyldu og síðan er vikið að gjöldum til trúfélaga og réttindi til að standa utan trúfélaga. Frsm., hv. 8. þm. Reykv., vék að því, ef ég hef tekið rétt eftir, að í þessari grein væri að finna atriði sem þyrfti að gaumgæfa og ég tel að það sé þörf á því. Það er t.d. síðasta efnisgreinin í greininni þar sem vikið er að gjöldum þeirra sem utan trúfélaga standa og vísað sérstaklega til Háskóla Íslands sem eigi að vera þiggjandi að þeim greiðslum. Það koma svo upp þær spurningar: Á hvaða grundvelli er þessi gjaldtaka? Á hvaða grunni er hún? Tengist hún ákvæði 3. gr. um að allir skuli jafnir fyrir lögum án tillits til trúarbragða eins og þar segir? Mér sýnist að greinargerðin svari því ekki með fullnægjandi hætti á hvaða grundvelli þessi tillaga er reist sem er vissulega ekki ný heldur aðeins smávægileg breyting frá því sem er í gildandi stjórnarskrá um þessi efni en ég tel þörf á að líta á hana og gaumgæfa hvernig rétt verði fyrir komið. Ég er ekki með tillögu í því efni en ég tek undir það sem ég held að ég hafi skilið hjá frsm. frv. að þörf væri á að líta á þetta sérstaklega.
    Ég kem ekki sérstaklega að atriðum sem ástæða er til að fagna. Það eru margar af þessum breytingum sem er ástæða til þess að fagna. Ég tek bara sem dæmi ákvæðið í 7. gr. um að í lögum megi aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu. Þetta er tímabært ákvæði og mjög gott að festa í stjórnarskrá og svo er um mörg ákvæði sem hér er að finna eða hafa verið felld út, t.d. ákvæðin sem eru í 75. gr. stjórnarskrárinnar um að sérhver vopnfær maður sé skyldur til að taka sjálfur þátt í vörn landsins. Þessi grein er felld út í því formi sem hún var og ég tel að það sé fyllilega réttmætt og standi mjög til bóta að fella slíkt ákvæði út enda spurning í margra huga hvers vegna ætti að halda slíkum ákvæðum inni í íslenskri stjórnarskrá eins og málum er skipað hjá okkur þar sem vopnleysi hefur kannski verið eitt af okkar sérkennum sem þjóðar og þar sem við höfum haft það í heiðri að ekki væri efnt til hers eða herskyldu af neinu tagi í landinu.
    Ég geri mér ljóst að það er ekki hægt að álykta of mikið í sambandi við þetta í ljósi þess sem fram hefur komið en ég tel að það sé veruleg breyting til bóta sem þarna er að finna.
    Ég ætla þá aðeins að víkja að ákvæði í 12. gr. frv. sem varðar 74. gr. stjórnarskrárinnar og snertir síðustu málsgreinina sem varðar rétt manna til að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almenna samkomur og síðan segir: ,,Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.`` Hér er um að ræða mjög svipað orðalag og í gildandi stjórnarskrá. Það er að vísu tekið inn ,,ef uggvænt þykir`` í staðinn fyrir ,,þegar`` eins og textinn er í gildandi stjórnarskrá okkar. Ég vek athygli á því að hér er vissulega á ferðinni mikið matsatriði og hlýtur alltaf að verða. Ég hef ekki kynnt mér þau ákvæði í lögum sem lögreglusamþykktir eru reistar á í þessum efnum, þ.e. inngrip löggæslu í sambandi við mannfundi eða að banna mannfundi. En það hlýtur að vera mjög mikið matsatriði

og vandráðið hvenær eigi að grípa til ákvæðis af þessu tagi að banna mannfundi undir berum himni vegna þess að líkur séu á að af þeim leiði óspektir. Og hér er að finna ákvæði sem er sem sagt vandmeðfarið og þyrfti að íhuga. Orðið ,,uggvænn`` í þessu sambandi getur haft mismunandi merkingu. Ég tel mig skilja þá merkingu sem hér liggur að baki en vek athygli á því að e.t.v. er gleggra að leita að öðru hugtaki eða öðru orði til að bjóða ekki upp á neinn misskiling.
    Þetta voru þau atriði sem ég vildi víkja að sérstaklega, virðulegur forseti. Ég vil svo undir lok máls míns við þessa umræðu aðeins vekja athygli á gildi þess að festa í sessi hin almennu ákvæði sem varða mannréttindi og mannhelgi og friðhelgi, þar á meðal friðhelgi heimilis með þeim takmörkunum sem að hefur verið vikið í umræðunni. Og jafnframt það að það er mjög langur vegur frá því að þau sjónarmið sem hér liggja að baki og við teljum sjálfsögð séu einhver allsherjarregla á heimsbyggðinni. Ég held að það sé þörf á því að átta sig á að í ýmsum ríkjum þar sem þessi grundvallarsjónarmið eru ekki ráðandi er um að ræða, þrátt fyrir alla umræðu, ákveðna gagnsókn gegn þeim réttindum sem við höfum haft í okkar stjórnarskrá og erum að reyna að styrkja. Ég verð var við það að á alþjóðavettvangi, t.d á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, eru lönd sem ganga mjög ákveðið gegn þeim sjónarmiðum sem eru í okkar stjórnarskrá og verið er að styrkja og færa sig upp á skaftið til þess að mæla gegn þeim sjónarmiðum og það stór og víðfeðm ríki eins og t.d. Kína sem hefur ákveðna forustu fyrir því að reisa rönd við þeim sjónarmiðum sem varða almenn mannréttindi og almenna mannhelgi en mörg önnur lönd mætti þar til nefna sem brjóta gegn og eru að beita sér í rauninni og reyna að hræða þá sem hafa tekið þessi sjónarmið upp í sína stjórnarskrá, flest Evrópuríki hafa gert það með einum eða öðrum hætti, og reyna að hræða þau frá því að þoka slíkum réttindum fram sem allsherjarreglu á heimsbyggðinni.