Hlutafélög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 21:09:58 (2910)

[21:09]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að flytja brtt. á þskj. 427 við frv. til laga um hlutafélög og einnig sambærilega breytingu við frv. til laga um einkahlutafélög. Í upphaflegu frv. sem lagt var fram um hlutafélög í 54. gr. sagði svo, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga.``
    Síðan kemur ákvæði sem hv. efh.- og viðskn. felldi út úr frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Hafi viðkomandi verið stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar í hlutafélögum eða einkahlutafélögum á tímabilinu sex mánuðum fyrir frestdag eða síðar og gjaldþrotaúrskurður hefur oftar en einu sinni verið kveðinn upp í slíkum félögum á síðustu þremur árum má viðkomandi ekki vera stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri í hlutafélagi í sams konar eða svipuðum rekstri fyrr en liðin eru minnst þrjú ár frá upphafi síðasta gjaldþrotaúrskurðar. Hlutafélagaskrá getur veitt undanþágu frá þessu skilyrði ef sérstaklega stendur á.``
    Það er skoðun þeirra sem flytja þessa brtt. að eins og upphaflega ákvæðið var orðað í frv. sé það miklu betra en eins og hv. efh.- og viðskn. breytti því en hún lagði til að ákvæði frv. um réttindasviptingu í tengslum við ítrekuð gjaldþrot yrðu felld brott en í stað þess yrðu viðurlög tengd við dóm fyrir refsiverða háttsemi í tengslum við atvinnurekstur. Rök nefndarinnar voru þau að þessi ákvæði frv. hafi verið of íþyngjandi og geti dregið úr vilja hæfra einstaklinga til að setjast í stjórnir eða taka að sér framkvæmdastjórn hlutafélaga þegar illa árar hjá félögum. Eins og frv. er núna úr garði gert er það einungis um það að þeir sem hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað geti ekki tekið sæti í hlutafélögum í sams konar eða svipuðum rekstri. Alls ekki mörg mál hafa farið fyrir dómstólana en aftur á móti fara margfalt fleiri mál fyrir yfirskattanefnd, áður ríkisskattanefnd, og þar sæta aðilar sektarmeðferð hjá yfirskattanefnd fyrir skattalagabrot. Við teljum enga ástæðu til þess að þeir sem hafa sætt sektarmeðferð hjá yfirskattanefnd fyrir skattalagabrot í tengslum við brot á atvinnurekstri sæti ekki sambærilegu ákvæði að mega ekki sitja í stjórn hlutafélags. Þess vegna er þetta ákvæði flutt til breytingar á því ákvæði sem hv. efh.- og viðskn. lagði til

til þess að gera ákvæðið þó einhvers virði að það skili því sem upphaflega var meiningin og fram kom í frv. eins og það var lagt fram á þinginu.