Hlutafélög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 21:34:28 (2917)

[21:34]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. flm. brtt., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, 12. þm. Reykv., sagði að í tilviki sektarmeðferðar þyrfti ekki að vera minni háttar brot og ég rengi hv. þm. ekkert. Það er sjálfsagt rétt og kom reyndar fram að í einhverjum mæli hefur þess gætt á undanförnum árum að sökum seinagangs í dómskerfinu hafi verið tilhneiging til að ljúka málum frekar með sektarmeðferð og jafnvel í mörgum tilvikum býsna alvarlegum brotamálum gagnvart skattalögum en það kom heldur ekki fram neitt annað í svari hv. þm. sem einnig gæti þar verið í bland hrein minni háttar mál. Þá er það spurningin hvar á að greina þarna á milli. Það er af þeim sem menn hafa áhyggjur. Það er spurningin um það hvort þessi tilvik eru öll sömul það sambærileg að sanngjarnt eða réttlætanlegt sé að láta þessa takmörkun gilda um allan þennan hóp, jafnt þá sem hafa fengið á sig dóm vegna meiri háttar brota á einhverjum af þessum lögum sem varða atvinnureksturinn og hina sem í tilviki skattameðferðarinnar hafa kannski verið minni háttar. Í svörum hv. flm. tillögunnar fannst mér ekki koma fram upplýsingar sem a.m.k. gerðu mig miklu nær um það hvernig þetta mál er vaxið. Hv. þm. sundurgreindi ekki þá rúmlega 100 aðila sem sætt hafa lúkningu sinna mála með sektarmeðferð hjá ríkisskattanefnd eða nú yfirskattanefnd. Ég held að það sé einmitt slík sundurliðun og upplýsingar um það sem vanti til þess að það væri forsvaranlegt að samþykkja tillöguna.