Fjáraukalög 1994

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 15:28:48 (2928)



[15:28]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fresta umræðunni. Það eru sterkar líkur fyrir því að þetta mál njóti ekki meirihlutafylgis á Alþingi. Hér hafa tveir öflugir stjórnarsinnar, hv. þm., lýst andstöðu við einstaka þætti og ég er satt að segja ekkert hissa á því þó að þeir lýsi andstöðu við þetta plagg. Mér sýnist að meiri hluti hv. fjárln. hafi verið gripinn einhverju skyndilegu stórmennskubrjálæði. Ég skil ekkert í því með svo hógværa og ágæta menn að þeir skuli láta frá sér fara texta eins og hér stendur og ætla að yfirtaka stjórn landsins með þeim hætti sem þeir gera hér. Hér segir, frú forseti:
    ,,Meiri hluti fjárln. hefur ákveðið í samráði við landbrh. og fjmrh. að leggja til að 40 millj. kr. framlag vegna áburðarhúsa og vatnsveitna sem byggð voru á árunum 1992 og 1993 enda uppfylli jarðabætur þetta skilyrði jarðræktarlaga um greiðslu framlags. Jafnframt vilja sömu aðilar láta það koma skýrt fram að ekki verði um frekari fjárveitingar að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum.``
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki efnislega umræður.)
    Frú forseti. Hv. meirihlutamenn í fjárln. hafa held ég farið þarna einum of langt. Ætla hv. þingmenn Sjálfstfl. að sætta sig við þessa afgreiðslu? Ætla þeir að gera það? Er þetta kosningastefnuskrá Sjálfstfl. sem birtist hjá meiri hluta hv. fjárln.? Ég held, frú forseti, að það sé óhjákvæmilegt að fresta fundi. Ég tel að stjórnarflokkarnir þurfi að efna til þingflokksfunda og ræða þessi mál og ef þetta frv. verður tekið aftur á dagskrá mætum við að sjálfsögðu til fundar en mér sýnist einhvern veginn ástæða til þess að ræða það frekar í þessari stöðu.