Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 16:37:27 (2937)



[16:37]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Geir Haarde, formaður þingflokks Sjálfstfl., svaraði engu af því sem ég spurði hann um. Ég bað um skýrslu um það hvort búið væri að leysa þann ágreining sem hér blossaði upp í þingsalnum milli stjórnarliða um afgreiðslu fjárln. á frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994. Við þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna höfum orðið að sitja hér aðgerðalaus meðan deilur hafa staðið í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég vil segja hv. þm. það alveg skýrt að ég hef nóg annað við minn tíma að gera en sitja hér og bíða í þinghúsinu eftir því að þingmenn stjórnarflokkanna leysi ágreiningsmál sín. Það hefur verið venjan í þinginu að þegar fjárln. skilar frv. til fjáraukalaga til 3. umr. og lokaafgreiðslu í þinginu þá sé búið að leysa þau ágreiningsmál í stjórnarflokkunum.
    Það sérstaka við stöðuna nú er að það kemur í ljós á fyrsta kortérinu að málin eru óleyst í stjórnarflokkunum og það rísa hér upp formaður landbn., hv. þm. Egill Jónsson, og formaður sjútvn., hv. þm. Matthías Bjarnason, og krefjast þess að málið gangi ekki lengra vegna ágreinings þeirra við afgreiðslu fjárln. á málinu. Hv. þm. Geir Haarde er það þingvanur að hann veit það ósköp vel að það er mjög óvænt og sérstakt að slíkur ágreiningur skuli koma hér í ljós.
    Hér áttu ekki að hefjast þingfundir fyrr en kl. 3 í dag Það er líka óvenjulegt, hv. þm. Hann gat hins vegar aðeins staðið í um það bil hálftíma eða svo og nú er búið að fresta því máli sem átti að vera aðalumfjöllunarmál síðdegis. Hv. þm. þarf ekkert að vera hissa á því að við sem höfum nóg annað við okkar tíma að gera viljum fá skýr svör við því hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að stýra málum á þessum síðasta sólarhring.
    Það er kannski þannig að ágreiningurinn sé enn þá svo heitur í stjórnarliðinu að hv. þm. Geir Haarde treysti sér ekki til þess að segja neitt um það í ræðustól en það ætti hann að vita líka að sú nýskipan hefur verið tekin upp í þinginu með því að þingið starfar í einni deild að viðkomandi fagnefndir eiga að fá til umfjöllunar þau atriði sem fjárln. er að afgreiða. Það sem kom í ljós áðan var það að fjárln. ætlaði að fara að afgreiða eða þ.e. fáeinir stjórnarliðar í fjárln., svo að ég orði þetta nú rétt, ætluðu að fara afgreiða viðkvæma hluti í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum án þess að ræða það við landbn. og sjútvn. Það er alveg nauðsynlegt líka að fá að vita það hvort þeir hæstv. ráðherrar sem þessi mál heyra undir hafa samþykkt afgreiðslu fjárln. í þessu máli. Ég óska þess vegna eftir því að fá skýr svör við því: Er búið að leysa þessi ágreiningsmál eða eigum við von á því síðar á þessum sólarhring að þau blossi upp á ný í þingsalnum?