Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 16:41:00 (2938)


     Forseti (Kristín Einarsdóttir) :
    Eins og hv. þingmenn vita fór fram umræða um það dagskrármál sem er nú á dagskrá þessa fundar. Það var óskað eftir hléi til að leysa ákveðin mál. Forseti varð við því. Það er búið að fresta umræðum um dagskrármálið og ætlunin var að slíta þessum fundi og setja nýjan fund og taka á dagskrá mál sem einnig eru til meðferðar í þinginu og hafði forseti vænst þess að það væri hægt að gera það og halda síðan áfram eins og áætlað hafði verið með utandagskrárumræðu kl. 5.30 og síðan átti að gera hlé á þeim fundi kl. 6 og síðan að taka til við væntanlega þá fjáraukalög í kvöld kl. 9 eða þá önnur mál sem þarf að ræða hér eins og þingmönnum er ljóst, t.d. frv. til lánsfjárlaga en búið er að dreifa nefndaráliti meiri hlutans og hefði hugsanlega verið hægt að byrja á því. Þetta hins vegar kemur allt í ljós eftir því sem málum vindur áfram.