Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 16:42:24 (2939)



[16:42]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki fengið nein svör við spurningunni sem ég varpaði fram í upphafi þessarar umræðu hvort það eru líkur á því að frv. til fjáraukalaga komi til umræðu í dag. Það er ekki nægilegt svar að það verði á dagskrá, það er engin trygging fyrir því að það komi til umræðu og það er lágmark að við stjórnarandstæðingar sem bíðum hér daga langa eftir því að stjórnarliðið komi sér saman um málin fáum að vita eitthvað um það sem fram undan er.
    Ég tek það auðvitað sem svo að það er ekkert samkomulag um þetta mál og það var auðheyrt á ræðu formanns þingflokks Sjálfstfl., hv. 8. þm. Reykv., að það er ekkert samkomulag orðið um þetta mál. En það er þó miklu hreinlegra að viðurkenna það og fresta málinu og vera ekki að gæla við að það verði rætt á kvöldfundi í kvöld. Það er miklu hreinlegra að ganga þannig til verks þannig að það sé þá eitthvert

skipulag á því sem er að ske í hv. Alþingi. Ég er svo sem ekkert hissa á því eftir það upphlaup sem varð áðan þó að það sé ekki komið samkomulag um þetta mál á hálftíma en ég held að hv. stjórnarliðar ættu að taka sér tíma og viðurkenna að það er allt í uppnámi og verður ekkert samkomulag um málið í dag.