Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 16:50:12 (2942)



[16:49]
     Guðni Ágústsson :

    Hæstv. forseti. Það vekur athygli mína að vandræðin eða verkleysið stafar ekki af stjórn hæstv. forseta. En ég tek eftir því gjarnan, hæstv. forseti, að sá sem mestu ræður um hvernig gengur að afgreiða mál á svona tímum er verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. vart sést í sæti sínu um þessar mundir. Hæstv. forsrh. ber ábyrgð á þeim skrípaleik sem nú gengur yfir þingið í vinnubrögðum sem eru fáheyrð að mínu viti þannig að ég verð að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. lætur vart sjá sig hér í þinghúsinu og það þykir mér mikið ábyrgðarleysi að ætlast til þess að vera marktækur þegar svona staða er komin upp í þinginu að stjórnarliðið rífst meira og minna út af hverju málinu á fætur öðru.
    Ég minnist þess sem þingmaður og átti á þeim tíma minn formann sem hæstv. forsrh. að þá var það yfirleitt hans verkefni að reyna að leysa mál, ná sáttum um hvernig mál yrðu afgreidd og hvernig þingið kæmist í sitt jólaleyfi. Ég verð að vekja athygli á því, hæstv. forseti, og það er kannski ekkert síður verkefni hæstv. forseta og forsætisnefndar að kalla þann mann til ábyrgðar og samninga um það hvernig þinghaldinu verður lokið fyrir jól. Það er mín skoðun. Og mér sýnist eins og hér hefur komið fram að hér séu það mörg stór mál óleyst að það verði að kalla verkstjórann til ábyrgðar og síðan sjáum við það í mörgum þessum málum sem menn eru þó að reyna að taka fyrir að þar er slíkur ágreiningur innan stjórnarliðanna að þau komast ekki einu sinni á dagskrá. Svo vekur það athygli mína að hér eru ekki lengur í þingsalnum fjárlaganefndarmenn Sjálfstfl. ( JGS: Það er búið að setja þá af.) Ég vil spyrja einmitt að því, voru þeir settir af á þingflokksfundi? Mér finnst að framferði þeirra hafi verið með þeim hætti að það væri full ástæða, gæti meira að segja fjölgað atkvæðum flokksins væri það gert.
    Hæstv. forseti. Mér finnst þetta þinghald svona við þessar aðstæður ekki ganga upp og geri þá kröfu að hæstv. forsrh. reyni í fyrsta lagi að ná sátt í þeim herbúðum þar sem hann ræður, þá á ég við í stjórnarliðinu, og eigi viðræður við okkur stjórnarandstöðuflokkana um hvernig málum verði hagað núna hér fyrir jólin.