Aðgerðir til að sporna við ofbeldi í Reykjavík

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:54:11 (2965)


[17:54]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka fyrir að þessi umræða á sér stað innan Alþingis. Síðasti ræðumaður gat mjög um það að kannski væri mest um að kenna því uppeldislega umhverfi sem við lifðum við á þessum tímum. Það kann nokkuð til að vera í því.
    Ef litið er til þeirrar tækni sem nú er boðið upp á, t.d. á sviði vídeótækninnar, hvar unglingar geta haft vídeóspólu með einhverjum hrottalegum ofbeldismyndin og sýnt hana svo hægt á vídeótækinu sínu að þeir geta skoðað hvert ofbeldisatriði lið fyrir lið, mynd eftir mynd, þá má náttúrlega segja að það stefni ekki í rétta átt hjá þeim foreldrum sem láta börn afskiptalaus á heimili sínu horfandi á þessar hrottalegu myndir margar hverjar.
    Hér var komið inn á að þetta ástand væri orðið svo vegna þess að hér væri orðið svo mikið af bjór- og ölstofum. Það kann vel að vera að það eigi sinn hlut að máli þessu. En ekki vildi ég heldur horfa á unglingana labba hér um götur og torg með brennivínsflöskur eins og var á árunum áður vegna þess að það var ekki hægt að fá öl. ( Gripið fram í: Þau gera það líka.) Ég er alveg sannfærður um að með tíð og tíma og til lengri tíma litið mun vínmenning þróast í annan farveg. Það leysir okkur hins vegar ekki undan þeim vanda sem við verðum að leysa til þess að halda á málum og koma á lögum og reglu í miðborg Reykjavíkur. Menn gleyma því líka að það eru ekki bara unglingar úr Reykjavík sem eru í Austurstrætinu og haga sér svo sem raun ber vitni um. Það vill þannig til að því miður eru þetta unglingar sem koma úr nágrannasveitarfélögunum líka. Ef litið er til þess vanda og meinsins í reynd þá eru það fyrst og fremst heimilin og foreldrar þessara barna sem eru í vanda stödd.