Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 22:44:34 (2971)


[22:44]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er nú eiginlega stóra spurningin: Trúir hæstv. fjmrh. þessu sjálfur? Telur hann til að mynda að það sé stórkostlegur árangur að hallinn milli umræðna í fjárlagafrv. sé ekki að aukast um nema eitthvað á annan milljarð þrátt fyrir auknar tekjur? Er það gífurlegur árangur? Eða að gera ríkissjóð upp með 38--40 milljarða halla á einu kjörtímabili, hæstv. fjmrh., er það svona stórkostlegur árangur?
    Að viðskiptahalli hafi minnkað og snúist í viðskiptaafgang, er það svo merkilegt, hæstv. fjmrh., þegar orðið hefur jafngífurleg lífskjaraskerðing og raun ber vitni hjá þjóðinni? Kaupmáttur landsmanna hefur minnkað þannig að það hefur stórlega dregið úr innflutningi þegar fjárfestingar fyrirtækja eru nánast engar svo að það eru engin erlend aðföng flutt inn í landið og það er meira að segja verið að selja flugvél sem mun auka viðskiptaafganginn um 1.800 millj. kr. ef það verður bókfært fyrir áramót. ( ÓRG: Þú varst heppinn að það var ekki farið í álframkvæmdirnar.) Er þetta gífurlegur árangur, hæstv. forseti, ef þetta er sett í sitt rétta samhengi? Og gleymum þá ekki því sem hæstv. fjmrh. gleymdi og nefndi ekki í árangursræðunni í andsvarinu. Hann sakar mig um að gleyma hlutum en nefndi sjálfur ekki einu orði atvinnuleysið, ekki einu orði. Er það ekki hluti af árangri ríkisstjórnarinnar að hafa komið atvinnuleysinu upp í 5%? Og að vextir á pappírum séu lægri en þeir voru síðustu daga ríkisstjórnar 1991? ( Fjmrh.: Mánuði.) Já, er það svo já. En þeir seljast bara ekki. Það er fínt að hafa lága vexti á pappírum sem svo seljast bara ekki mánuðum saman. Hversu raunhæfir eru þeir vextir? Hve raunhæft er 5% vaxtaþak í húsnæðisbréfum og ríkisskuldabréfum þegar þau hafa ekki selst mánuðum saman? Dettur hæstv. fjmrh. ekki í hug að það segi einhverja sögu um þann hinn sama vaxtaárangur að bréfin seljast ekki?