Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 22:46:39 (2972)


[22:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. skilji ekki um hvað hann er að tala. Auðvitað er það svo

að það fara fram viðskipti á verðbréfaþinginu, á markaði, og vextirnir þar sýna sig í dag að vera miklu lægri en þeir voru á síðustu mánuðum síðustu ríkisstjórnar. Það eru alltaf til sölu og eru keypt og seld skuldabréf á markaði og það veit auðvitað hv. þm. Til að mynda húsbréf eru seld núna eins og þau voru seld fyrir fjórum árum síðan, þetta blasir við. Ég vona að hv. þm. hafi ekki meint það sem hann sagði hérna því þá kemur í ljós að hann veit ekkert um hvað hann er að tala.
    Í öðru lagi þá er það rétt með atvinnuleysið en það kostar líka útgjöld ríkissjóðs. Samt sem áður eru útgjöldin að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu. Á meðan hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh., og það er kannski aðalatriði málsins, var viðskiptahallinn 20 milljarðar þá fékk hann skatttekjur af viðskiptahallanum. Nú er þjóðin að greiða niður erlendar skuldir. Svo þegar minnst er á hallann og sagt að hann sé milljarði hærri á næsta ári en stóð til að hann yrði, í hverju felst það? Það felst í því að ríkisstjórnin hækkaði útgjöld til vegamála um 1.250 millj. kr. og tók tekjur á móti upp á 300 millj. Þetta er munurinn. Af hverju er þetta gert? Til þess að auka framkvæmdir í landinu og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þetta veit auðvitað hv. þm. Svo þegar verið er að bera saman árangur þessarar ríkisstjórnar og þeirrar sem sat á undan sem hv. þm. ber ábyrgð á má ekki gleyma því að þá var stundum ætlunin að ná hallanum verulega niður. Það var talað um 4 milljarða, en hvað urðu þeir margir? Ellefu. Þannig að það kemur líka í ljós að fjárlagatölurnar standa miklu betur nú heldur en nokkurn tímann áður. Þetta ætti hv. þm. að hafa í huga en ekki að reyna að berja höfðinu við steininn, reyna að mótmæla efnahagsbatanum og reyna að finna allt sem er dökkt þegar ljóst er að það er þó heldur bjartara fram undan heldur en verið hefur. ( ÓRG: Af hverju leysir þú þá ekki verkfall sjúkraliða ef það er svona mikill bati?)