Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 22:51:09 (2974)


[22:51]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Frsm. minni hlutans, hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, hefur farið ítarlega yfir nál. og fylgigögn svo að ég sé ekki ástæðu til að fara yfir það á þeim forsendum. Ég vil hins vegar í upphafi míns máls fara nokkrum orðum um stöðuna í ríkisfjármálum og stöðuna í vaxtamálum. Hæstv. fjmrh. lét afskaplega vel af sér og sínu búi í sínu máli hér áðan. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst hæstv. ráðherra ansi kokhraustur. Það sem mér finnst e.t.v. stærsta áhyggjuefnið miðað við stöðuna í dag er það að nú þegar hillir undir og við sjáum svolítinn bata á þessu ári vegna Smuguveiða, vegna aukinnar loðnu og síldveiða og rækju og það sýnir sig í því að frá framlagningu fjárlagafrv. til endurskoðaðrar tekjuáætlunar í dag þá gefi þetta framreiknað samkvæmt þessari spá 2,7 milljarða í viðbótartekjur ríkissjóðs á næsta ári, að þessu skuli öllu saman sturtað út umhugsunarlaust og einum milljarði til viðbótar áður en kemur að niðurstöðu fjárlaga.
    Ef það er rétt hjá ríkisstjórninni að það hilli undir áframhaldandi bata þrátt fyrir stjórnina þá hefði það verið grundvallaratriði til þess að halda hér stöðugleika í efnahagsmálum að nota þennan bata til að draga úr fjárlagahallanum. Því þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að sturta þessu öllu út og auka á fjárlagahallann þegar e.t.v. væru einhverjar líkur á því að atvinnulífið færi að fjárfesta, mun verka eins og olía

á eld á vextina. Hæstv. fjmrh. getur ekki horft fram hjá því að langtímabréf ríkisins eru hætt að seljast og ríkissjóður er að fjármagna sig núna á ECU-bréfum og víxlum og það er að verða komið allt niður í þriggja mánaða víxla. Til viðbótar við þetta stöndum við frammi fyrir því að í byrjun næsta árs, nánar tiltekið í febrúar, kemur einhver stærsta innlausn sem lengi hefur verið á spariskírteinum ríkissjóðs upp á 7,7 milljarða. Ég vek athygli á því að á síðasta ári seldust spariskírteini ríkissjóðs fyrir 9 milljarða samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í nefndinni þannig að það er tæplega sú tala sem var seld á öllu þessu ári sem kemur til innlausnar í einu lagi í febrúar nk. Ef ríkisstjórnin heldur fast við 5,0% vaxtamarkið og tekur ekki tilboðum sem eru hærri en það þá gerist annað af tvennu, nema hvort tveggja sé í einhverri blöndu, að þetta fjármagn fer að einhverju leyti úr landi og ríkið verður að fjármagna þetta upp á nýtt með skammtímapappírum. Þetta er sú mynd sem blasir við varðandi fjármögnun ríkissjóðs á næstu vikum. Það er alveg sama við hverja við höfum rætt í efh.- og viðskn., hvort það eru æðstu embættismenn fjmrn. eða fulltrúar Seðlabankans eða þjóðhagsstofustjóri, þeir staðfesta allir þessa mynd. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við þessu?
    Ég virði ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta ári þegar hún tók vextina niður með handafli og ákvað að hún tæki ekki tilboðum sem væru hærri en 5,0% og færi þá frekar í erlenda lántöku heldur en að gera það. Það var búið að leita eftir því við ríkisstjórnina mánuðum saman að hún gripi til þessara aðgerða og mér fannst það virðingarvert þá að hún gerði þetta. Það er hins vegar jafnljóst að í því opna hagkerfi sem við búum við í dag getur ekki ríkisstjórn ákveðið að vextir á langtímabréfum ríkissjóðs árum saman fari ekki yfir 5%. Og ég bendi á til viðbótar hvað þetta snertir að nú um áramótin þá er opnað fyrir allar skammtímahreyfingar til og frá landinu. Þá erum við komnir nákvæmlega á sama ról og allar aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu hvað þetta snertir. Þá höfum við bara tvennt til að hafa áhrif á fjármagnshreyfingar til og frá landinu og það er annaðhvort að breyta vöxtum eða gengi. Ég vil þá spyrja fjmrh. í framhaldi af þessu: Telur hann að gengið haldi ef haldið verður áfram þessari vaxtastefnu? Það er hvíslað að manni utan úr bæ að ástæðan fyrir þessu öllu sé sú að einstakir valdamiklir ráðherrar í núv. hæstv. ríkisstjórn trúi því að það sé markmið í sjálfu sér af hálfu stærstu fjárfesta hér á landi, þ.e. lífeyrissjóðanna, að brjóta þessa vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar niður. Nú hef ég enga trú á því. Ég trúi því að lífeyrissjóðirnir séu búnir að læra það að ef við lítum til lengri tíma þá sé það afar mikilvægt að hér byggist upp eðlilegur og traustur fjármagnsmarkaður. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé málum þannig háttað að ríkisstjórnin og ríkissjóður verði að horfast í augu við það sem þarna er fram undan.
    Það var afar merkilegt þegar kom fram undir mitt þetta ár að það virtist koma ríkissjóði algerlega í opna skjöldu að það skyldu aðrir aðilar en ríkissjóður fara í það í einhverjum mæli að fara í útboð á verðbréfamarkaði hér innan lands og sækja sér peninga á þann hátt. Það var eins og það kæmi ríkissjóði algerlega í opna skjöldu. En af sjálfu leiddi að það var afar hagstætt fyrir fyrirtæki sem höfðu sæmilegan efnahaglegan bakhjarl að fara út á þennan markað og ná sér þar í fjármagn sem kostaði 6,5% vexti og leysa af hólmi skammtímafjármagn sem var verið að borga fyrir 12--14% í bönkunum. Að sjálfsögðu gripu fyrirtækin þetta tækifæri og að sjálfsögðu gripu sveitarfélögin einnig þetta tækifæri. Af sjálfu leiðir að þetta hlaut að hafa áhrif á sölu skuldabréfa ríkisins. Það er afar athyglisvert að við þessar aðstæður skyldi ríkisstjórnin og fjmrn. í einhverju fikti, eins og hæstv. fjmrh. sagði, þetta voru einhverjar tilraunir þar, gefa út ECU-bréfin sem miða við verðbólgu í dag og eru með miklu hærri ávöxtun en ríkisskuldabréf.
    Þetta er því miður, virðulegur forseti, --- ég vona að mér leyfist að nota þessi orð, virðulegur forseti, þrátt fyrir þær umræður sem hér fóru fram í dag. Ég kann afar vel við það og hef notað þau minn þingferil allan --- þetta er því miður sú staða sem blasir við okkur í dag.
    Ég verð að segja það að ef við tökum þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér í ríkisfjármálum í upphafi þessa kjörtímabils þá stendur þar ekki steinn yfir steini. Því miður. Samanlagður hallinn er að nálgast 40 milljarða kr. á kjörtímabilinu. Það er alveg rétt sem síðasti ræðumaður sagði að þetta er að hluta til vegna þess að menn brugðust við kreppunni með því að keyra efnahagslífið niður í staðinn fyrir að keyra það upp. Nú er svo komið að duglegir aðilar í íslensku atvinnulífi hafa gripið ýmis ný tækifæri: karfaveiðar á Reykjaneshrygg, Smuguveiðarnar, loðnufrystingin, rækjan sem menn hafa sótt í stórauknum mæli, síld að einhverju leyti hafa gefið þjóðarbúinu verulegan bata. En þá gerist það, eins og ég sagði hér áður, að það virðist ætla að fara þannig fyrir ríkisstjórninni að því af þessum bata sem skilar sér vegna veltuaukningar beint í ríkissjóð á öllu saman að sturta út. Til viðbótar við það eru ekki notaðir þeir tekjumöguleikar sem ríkissjóður hefur. Það væri eðlilegt við þessar aðstæður að bregaðst við að nokkru leyti á þann hátt til þess að minnka hallann að auka tekjurnar. Fyrsta skref sem við framsóknarmenn höfum bent á gæti verið að breikka eignarskattsstofninn, taka þar alla fjármagnseignina inn og þó við hækkuðum fríeignarmarkið á hjón um eina milljón og afnæmum hærra þrepið í eignarskattinum þá mundi þetta þrátt fyrir það ef allt skilaði sér skila 1,5 milljörðum í ríkissjóð. En í okkar tillögum á síðasta ári þorðum við ekki að reikna með nema 800 millj. hvað þetta snertir sem skil í fyrstu umferð.
    Þessu er sleppt. Þess í stað er það boðað sem einhver sérstök réttlætisaðgerð að afnema einan og sér sérstaka eignarskattinn á háeignirnar sem er aðgerð sem er algjörlega út í hött ef hún tengist ekki öðrum aðgerðum í skattamálum.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það frv. sem hér hefur legið fyrir og þær

brtt. sem við höfum séð og er þó ekki víst að þar sé allt komið því þannig eru vinnubrögðin hjá stjórnarmeirihlutanum núna að mál eru rifin út hálfunnin með brtt. og það boðað að síðan verði tíndar inn fleiri breytingar eftir því sem þær falla til og þá boðaðar fyrir 3. umræðu. Eru þetta náttúrlega vinnubrögð sem alls ekki eru líðandi. Síðan að sjálfsögðu, miðað við hvernig mál ganga fram núna, þá sjáum við ekki enn þá niðurstöðutölu fjárlaga þannig að breyting á 1. gr. er ekki komin fram en eftir því sem okkur er sagt mun hallinn aukast um u.þ.b. 1 milljarð frá frv. til fjárlaganna og er þá búið að reikna inn frá 1. sept. áætlaðan tekjuauka á næsta ári upp á 2,7 milljarða kr. Þannig að eitthvað hefur gengið á í þessari vinnu.
    Þær breytingar sem hér eru kannski helstar eru breytingar á byggingarsjóðunum sem okkur er sagt að séu fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Nýir útreikningar á þörf þeirra sjóða. Síðan er ríkisábyrgðalánið til Stofnlánadeildar hækkað úr 700 millj. kr., sem hafði verið beðið um vegna hefðbundinnar starfsemi deildarinnar, upp í 1.600 millj. kr. til þess að mæta nýrri skuldbreytingu hjá bændum sem Stofnlánadeildin mundi þá sjá fyrir og sjá um. Var farið nokkuð vel yfir það atriði í nefndinni og kom í ljós að skuldbreyting sem farið var í fyrir 10 árum hafði tekist nokkuð vel og er full ástæða til þess að ætla að Stofnlánadeildin með þeim sem hún kallar til muni vinna þetta mál vandlega þó svo að aðstæður séu á margan hátt allt aðrar og mikið breyttar í dag, bæði er veðhæfnin minni og ýmislegt annað sem gerir það að verkum að ég óttast að þessi aðgerð verði erfiðari í framkvæmd núna en hún var fyrir 10 árum síðan.
    Síðan koma gamlir kunningjar, þ.e. hér eru nokkrar hitaveitur sem hafa átt í viðvarandi erfiðleikum með sína fjármögnun og hér er um að ræða endurlán hjá nokkrum slíkum veitum þar sem þær eru að leysa af hólmi eldri lán og afborganir með nýjum og væntanlega hagstæðari lánum.
    Síðan er fjórði liðurinn. Þar er kominn eilítill kosningabragur á áætlunina þar sem Vegagerðinni, vélamiðstöð, er heimilað að yfirtaka allar skuldir Hríseyjarhrepps vegna kaupa á ferjunni Sæfara. Ekki kann ég að rekja þetta mál ( VE: Þetta er nú gömul synd.) mikið en þetta ku vera 102 millj. kr. sem Vegagerðin er að yfirtaka og kann ég ekki framhald málsins ( VE: Biddu Steingrím J. að útskýra það.) hvernig þessu verður síðan endanlega komið yfir á ríkissjóð en það verður sjálfsagt gert á lengri tíma í gegnum hefðbundnar fjárveitingar Vegagerðarinnar sem þá að hluta til renna til vélamiðstöðvarinnar. Alla vega sé ég ekki hvernig þetta gerist á annan hátt heldur en þann.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að halda miklu lengri ræðu um þetta mál en ég ítreka það sem ég sagði í upphafi míns máls að það sem mér finnst alvarlegast í þessu er það hvernig ríkisstjórnin lemur höfðinu við steininn gagnvart þeim breytingum sem eru orðnar á fjármagnsmarkaðnum og verða til viðbótar núna um áramótin. Það var, eins og ég sagði í upphafi míns máls, góðra gjalda vert að beita handafli á síðasta ári og að sjálfsögðu eiga stjórnvöld að grípa inn í vaxtamál þegar það á við með handafli, með stjórnvaldsaðgerðum til þess að hafa áhrif á vextina. En það er alveg jafnljóst að við þær aðstæður sem við búum núna þá er ekki hægt að beita því svo árum skipti. Það hlýtur að togna það á handleggjunum að það endar með að eitthvað lætur undan. Þá er að mínu mati miklu skynsamlegra að slaka meðvitað á og vinna eftir einhverri ákveðinni og markaðri stefnu heldur en að bíða eftir því að allt springi, bíða eftir því að það sé komið að milljarða innlausn á ríkisspariskírteinum og hafa þá nánast ekkert svigrúm til þess að grípa inn í.
    Virðulegur forseti. Ég fer að ljúka máli mínu, ég hafði vænst þess að hæstv. fjmrh. sem oft og tíðum svarar í formi andsvara mundi svara tveimur spurningum sem ég hafði lagt fyrir hann. Það er í sjálfu sér af nógu að taka og hægur vandi fyrir mig að ræða um lánsfjárlögin í einhverja stund og þess vegna í alla nótt þar til hæstv. fjmrh. kemur í salinn aftur en að sjálfsögðu er það val hæstv. ráðherra hvort hann kýs að svara þessu í andsvari eða bíða til fyrramáls þegar þessari umræðu lýkur en ef að líkum lætur þá stendur hún í einhverja stund. Það var eitt af því athyglisverða sem kom fram í umfjöllun nefndarinnar um þessi mál sem þó því miður var ekki næstum því eins ítarleg og verið hefur undanfarin ár. Svo var einnig um liði eins og tekjugrein fjárlaga. Í þessari pressu sem nú er sem er verri heldur en við eða alla vega ég hef kynnst þau ár sem ég hef verið á þinginu, þá er þessi vinna nefndarinnar öll meira og minna í skötulíki og getur ekki verið öðruvísi. Það er alveg ljóst að bæði hvað snertir tekjugreinina og ekki síður lánsfjárlögin þá er það mjög bagalegt að vinna nefndarinnar standi þannig að það sé ekki búið að vinna skattafrumvörpin meira en raun ber vitni.
    Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn ef hann kýs að svara þeim spurningum sem ég bar fram við hann í formi andsvara en að sjálfsögðu er það hans val hvernig hann beitir því. En ég spurði hæstv. ráðherra á hvern hátt hann sæi að ríkissjóður mundi bregðast við þeirri stóru innlausn sem er á spariskírteinum ríkissjóðs í upphafi næsta árs. Og í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji að gengið muni halda á næsta ári ef ríkisstjórnin héldi fast við 5,00% vaxtamarkið sem hefur verið haldið með handafli nú á annað ár.