Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 23:17:07 (2976)


[23:17]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nefnilega heila málið, eins og maðurinn sagði, að þeir sem eru að fá þetta innleyst þarna þurfa að koma því aftur í lóg. Og um það snúast áhyggjur embættismanna fjmrn. Eins og málið stendur núna þá er ekkert líklegra en verulegur hluti af þessu fari beint á erlendan markað. Mér heyrðist að hv. þm. hafi engar áhyggjur af því þó að ríkið yrði á móti að fjármagna sig erlendis.
    Það er alveg rétt að við búum orðið við þær aðstæður að þessar hreyfingar eru opnar. En ég held hins vegar að við eigum að passa okkur á því að vísvitandi örva ekki þessar hreyfingar. Við þurfum að fikra okkur áfram eftir þessum vegi, en að stefna beint með opin augun í það að svona stór innlausn fari e.t.v. að verulegu leyti á erlendan markað það held ég að sé ekki skynsamlegt.
    Og ég vil spyrja hv. þm. sem sérfræðing í efnahagsmálum: Telur hann að handaflsaðgerð eins og framkvæmd var á síðasta ári, að ákveða að ríkissjóður tæki ekki boðum sem færu yfir 5%, telur hann að það sé hægt að halda slíkri aðgerð gangandi stöðugt svo árum skipti? Alveg sama hvað gerist í kringum okkur og hvað gerist annars staðar á markaðnum? Er ekki miklu skynsamlegra að leyfa hlutunum að þróast eilítið?
    Og ég bendi á það er hv. þm. talaði um hvað lífeyrissjóðirnir hefðu keypt af pappírum og langtímapappírum á síðasta ári, að það er ekki nóg að segja bara hvað gerðist á árinu, við þurfum að líta á þróunina innan ársins. Og þessi sala var nánast dottin niður undir lok ársins.