Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa

65. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 00:52:40 (2988)


[00:52]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Í framhaldi af orðum síðasta ræðumanns þá vil ég benda á það að stjórnarandstaðan hefur sýnt stjórnarmeirihlutanum mikla þolinmæði síðustu daga. ( KÁ: Vægast sagt.) Við höfum til að mynda ekki í þessari umræðu gert kröfu til þess að hér sætu þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokkum þar sem verið er fara fram á ríkisábyrgðir upp á milljarða í því frv. til lánsfjárlaga sem hér er til umræðu. Ég hef ekki séð hæstv. landbrh. nema rétt í flugumynd en hér er verið að fara fram á heimildir til stórra skuldbreytinga fyrir Stofnlánadeild landbúnaðarins og ég held að það væri lágmark fyrir framgang málsins að hæstv. ráðherra væri hér.
    Nú veit ég ekki hvaða ráðherra fer með utanríkismál þessa stundina. Utanrrh. höfum við ekki séð hér nema í flugumynd síðustu vikurnar ( Gripið fram í: Ég sá hann í sjónvarpnu áðan.) en í þessu frv. til lánsfjárlaga er um að ræða beiðni um ríkisábyrgð upp á 2 milljarða fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem heyrir undir hæstv. utanrrh. Ég vil fara fram á það, virðulegur forseti, að það verði kannað hvar hæstv. utanrrh. heldur sig ef hann er á landinu að hann sýni þessu máli þá virðingu að koma hingað. Okkur í efh.- og viðskn. hefur ekki tekist enn þá að fá fulltrúa utanrrn. á fund til þess að fjalla um þau mál.
    Ef svo er að það fer einhver annar með þennan málaflokk þá vil ég fá það upplýst hver er starfandi utanrrh. eins og nú stendur. Ef menn vilja fara að hleypa málum í einhverja hörku og telja sig hafa einhverja stöðu til þess að setja stjórnarandstöðunni stólinn fyrir dyrnar þá er lágmark að þeir ráðherrar sem þurfa á framgangi mála að halda séu mættir í þinghúsið.