Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 11:10:30 (2995)


[11:10]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. 1. þm. Vestf. hefur skotið byltingarliðinu í fjárln. skelk í bringu og það er búið að fella út ákvæðið um að Byggðastofnun sé ætlað að gera fjárln. grein fyrir ráðstöfun fjármunanna. Svo yfirtakan á stjórn Byggðastofnunar hefur sem sagt mistekist. En þetta var ekki nema helmingurinn af málinu. Hv. 3. þm. Austurl. var nú kannski ekki alveg eins reiður og hv. 1. þm. Vestf. í gær en hann hafði líka stífar athugasemdir við texta sem varðaði landbrn. um jarðræktarlög og löggjafarvald meiri hluta fjárln. í þeim efnum. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hvort það mál væri einnig leyst.