Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 11:44:13 (2999)


[11:44]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Vestf. spurði í tilefni af bréfi frá prófessor Reyni Tómasi Geirssyni um málefni kvennadeildar Landspítalans. Þannig er að þau mál sem snúa að Ríkisspítölunum voru tekin til umræðu og umfjöllunar í hv. fjárln. og síðar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og hæstv. heilbrrh. gerði sérstakt samkomulag við Ríkisspítala um þau mál sem snúa að Ríkisspítölunum sjálfum. Við litum svo á að hér væri um að ræða fullnaðarsamkomulag milli Ríkisspítalanna og ríkisvaldsins um málsmeðferð fyrir Ríkisspítalana á árunum 1994 og 1995 eins og það mun birtast í fjárlögum. Við töldum ekki ástæðu til þess að hafast frekar að. Við skoðuðum þessi mál og okkur er mjög vel ljós þau mál sem voru reifuð í máli og bréfi Reynis Tómasar Geirssonar. Það hafa komið að máli við mig a.m.k. persónulega einstaklingar sem þetta mál snertir þannig að mér er mætavel ljóst þetta mál. Hins vegar töldum við ekki að það væri á okkar færi að taka þetta mál sérstaklega fram fyrir og teljum að það eigi að leysa það innan vébanda Ríkisspítalanna.