Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 11:49:49 (3003)


[11:49]
     Egill Jónsson :

    Virðulegi forseti. Út af því sem hefur komið fram frá tveimur hv. þm., hv. 6. þm. Vestf. og hv. 6. þm. Suðurl., um að þörf sé á því að breyta jarðræktarlögunum þá vil ég minna á að jarðræktarlögin voru endurskoðuð árið 1989, ef ég man rétt, og það var gert víðtækt samkomulag á milli bændasamtakanna og Alþingis, ekki bara ríkisstjórnarinnar sem þá sat heldur var stjórnarandstaðan líka í þeirri umræðu, og þá voru felld mörg ákvæði út úr jarðræktarlögunum í trausti þess að þau gætu lifað áfram. Það er full ástæða til þess að þessi lög verði gerð virk í því horfi sem gert var samkomulag um áður en menn fari að taka upp nýja umræðu um breytingu á þeim.
    Ég þarf ekki að endurtaka orð mín frá því í gær um þau vinnubrögð sem voru viðhöfð við afgreiðslu þessa máls af fjárln. og komu mér jafnmikið að óvörum og öðrum þegar ég fyrst sá hver niðurstaða var við afgreiðslu nefndarinnar um fjáraukalögin þegar ég settist í þingstól minn í gær. Ég vísa til þeirrar umræðu og hún út af fyrir sig hlýtur að vera góð leiðsögn fyrir samskipti manna innan flokka og innan þingsins. En það eru þó auðvitað málefnin sem hér eru aðalatriðið. Ég gat þess að ég hefði átt tal við hv. varaformann fjárln., ég hygg að það hafi verið í fyrradag, þegar ég fékk vitneskju um það með hvaða hætti ætti að skipta fjármagninu til hinna einstöku jarðræktarframkvæmda. Ég mótmælti þeim hugmyndum einvörðungu vegna þess að þar er fyrst og fremst tekin út úr tiltekinn hópur bænda að mestu leyti, aðeins ein búgrein, en aðrir látnir sitja eftir. Auðvitað er það mikilvægur kostur að þær 40 millj. sem fjáraukalögin greina nú frá að eigi að fara til greiðslu á jarðræktarlögum skuli hafa fengist. Það er þó búið að brjóta málið upp og það verður auðveldara að halda áfram. En frá mínum bæjardyrum séð fannst mér það sjálfgefið að það fjármagn færi til greiðslu á framlögum fyrir árið 1992 og því yrði skipt hlutfallslega niður á þá sem ættu þennan rétt. Mér er t.d. alveg ómögulegt að skilja að það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að sauðfjárræktin í landinu fái ekki sinn hlut eins og aðrir. Hvergi nokkurs staðar í landbúnaði eru jafnmiklir erfiðleikar og þar. Landbn. Alþingis gerði ráðstafanir til þess að það yrði lagt stærðfræðilegt mat á hver þróun þeirra mála væri. Nýjar áætlanir sem Framleiðsluráð hefur gert og ég hef undir höndum, fékk í hendur á þessum morgni, staðfesta það að á því samningstímabili sem búvörusamningurinn nær yfir munu tekjur sauðfjárbænda dragast saman um 47%. Það samsvarar því að 1.300 ársverk í sauðfjárrækt eða hér um bil helmingur þeirrar greinar leggist af á samningstímabilinu. Auk þess sem annað fer á eftir. Þetta mundi jafngilda því að af þessu leiddi fækkun ársverka um 5.000 manns og er þá einungis talað um þá sem vinna í beinum tengslum við sauðfjárræktina. Þess vegna er mér alveg ómögulegt að skilja það þrátt fyrir að það séu ekki háar upphæðir sem ættu að koma út úr þessum 40 millj. kr. í hlut þessara bænda að þeir skuli ekki mega fá sína hlutdeild af því. Þessu hlýt ég að mótmæla. Þessi sjónarmið setti ég fram við varaformann fjárln.
    En það eru líka fleiri sem hér eiga hlut að máli. Á fund landbn. komu að eigin ósk og frumkvæði kornræktarbændur og bændur sem stunda grænfóðurframleiðslu. Þeir lögðu það á sig að koma langt utan af landi til þess að tala við landbn. um þessi mál. Þar skýrðu þeir skilmerkilega frá því að þessi nýja grein, kornræktin og kornframleiðsla á Íslandi, nýtur helmingi minni stuðnings en sambærileg framleiðsla t.d. í Danmörku. Þá er auðvitað miðað við að það væri greitt sem í þeirra hlut ætti að koma. Í áliti landbn. var lögð áhersla á að það yrði gengið til móts við þá bændur sem eru að feta sig inn í nýja tíma í ræktunarmálum með nýrri þekkingu og breyttum aðstæðum. ( GÁ: Kallaðu á landbrh., hafðu hann við.) Þessu er líka hafnað. Menn eiga aldrei á góðu von þegar hv. 5. þm. Suðurl. fer að gelta. Þingmaðurinn sem er búinn að eyða einum þriðja hluta af fylgi Framsfl. síðan hann tók við forustu í kjördæminu sínu. En það eru fleiri sögur um þessi efni. Ég minni á garðyrkjuna þar eiga menn líka ógreidda reikninga.
    Hins vegar er það eins og ég sagði áðan gríðarlega mikilvægt að nú hafa þessi mál verið brotin upp. Ég trúi því að í ljósi þessara staðreynda verði auðveldara að tala fyrir þeim hér eftir en hingað til. Ég trúi því líka að ríkisstjórnin átti sig á því að það þarf að taka til hendinni og gera sérstakar ráðstafanir til að sauðfjárræktin hrynji ekki á allra allra næstu árum. Í áliti meiri hluta landbn., sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. kaflinn 04 Landbúnaðarráðuneyti, og ég sagði í gær að væri markleysa. Og ég endurtek það aftur í dag að hann er markleysa. Þar koma hins vegar fram nokkur meginatriði og að þeim skal ég nú víkja.
    Í fyrsta lagi er, eins og kaflinn ber með sér, komi ekkert annað til, tekin ákvörðun um skiptingu framlaga vegna jarðabóta. Þetta er yfirlýsing eins og hún er sett fram og jarðræktarlögin standa eftir sem áður óhögguð í þessum efnum. Í 2. gr. þeirra laga segir:         ,,Búnaðarfélag Íslands, sem stjórnað er af þriggja manna stjórn og kosin er af búnaðarþingi, hefur á hendi umsjón með framkvæmd ræktunarmála og jarðabóta samkvæmt lögum þessum, enda sé skipulag þess og starfsreglur í samræmi við ákvæði laganna.``
    Lögin standa að þessu leyti (Gripið fram í.) algjörlega óbreytt og yfirlýsingar um að fara öðruvísi að duga ekki neitt. (Gripið fram í.) Stóra málið er það að það hlýtur að hafa vakað fyrir mönnum, þegar þeir setja slík fyrirmæli á blað sem þessi, að það eigi að gera aðrar ráðstafanir, að það eigi að breyta þessu fyrirkomulagi og það sagði varaformaður fjárln. mér reyndar þegar við áttum tal saman, að það yrði lögbundið hvernig úthlutun skyldi háttað. Að þessu leyti er nál. skýring á því sem ekki er komið fram enn í þessari umræðu og það er grundvallaratriðið. Það vantar að segja frá því hvernig eigi að koma þessari ákvörðun í framkvæmd því yfirlýsing breytir ekki lögunum. Það er mikill misskilningur að það sé hægt, hvort heldur sem er af þingnefnd eða ráðherra, að gefa yfirlýsingar sem lögskilið er að aðrir eigi að framkvæma öðruvísi heldur en að breyta lögum. Meðan annað hefur ekki komið fram er þessi framsetning því markleysa.
    Þá er talað hér í nál. um að það hafi verið á ferðinni mikill þrýstingur gagnvart þessum tveimur tilskildum jarðræktarframkvæmdum, eins og allar framkvæmdir sem heyra undir jarðræktarlög eru nefndar. Ég segi: Þetta er ekki sannleikur. Það hefur hvergi komið fram í erindum til landbúnaðarnefndar sem ég hef veitt móttöku. Það hefur ekki komið fram í einu einasta viðtali sem ég hefi átt við bændur, sem eru býsna mörg, þessi áhersla. Það hefur ekki komið fram sérstaklega hjá búnaðarþingi. Ég minni á að nýlega héldu formenn búnaðarsambandanna fund, fyrir fáum vikum, réttara sagt fáum dögum, og þá lögðu þeir áherslu á heildstæða afgreiðslu þessa máls.
    Þessar áherslur sem menn beita þess vegna fyrir sér hér eru líka rangar. Áherslan hefur verið á það að gera upp árið 1992 á fjáraukalögum. Áherslan hefur verið á það að gera upp árið 1993 á fjárlögum og þá hafa menn getað fellt sig við það að árið 1994 yrði látið bíða. Þetta eru áherslurnar. Það sem segir hér í þessum 04-kafla er rangt, það er önnur markleysan í þessum kafla.
    Og þá kem ég að því sem er líka grundvallaratriði og náttúrlega stærsta grundvallaratriði, að í niðurlagi þessa kafla verður með engum hætti annað séð en að menn ætli sér að afnema jarðræktarlögin og að menn ætli sér ekki að greiða það sem áfallið er. Og enn einu sinni segi ég að auðvitað eru yfirlýsingar í þessum efnum gagnslausar. Og þess vegna spyr ég um það, sem ekki segir í greininni og aðalgildi hennar byggist á, ef eitthvert er, að það sé eitthvað annað á ferðinni í þessum efnum. Menn séu með eitthvað í vasanum í þessum efnum. Og það hef ég reyndar lúmskan grun um að menn hafi ætlað sér eða ætli sér, hafi eða ætli sér, að afnema jarðræktarlögin, greiða ekki það sem út af stendur og setja þar punkt aftan við þessa merku löggjöf. Þetta er auðvitað það stórhættulegasta í málinu.
    Í fyrsta lagi er það svo . . .   (Gripið fram í.) Enn byrjar hann að gjamma, hv. 5. þm. Suðurl., kominn á spreng eins og venjulega. Nú er það auðvitað svo að ef menn fara bara út í almenna lagaskilgreiningu, ef menn fara út í það sem gilt hefur um uppgjör og fyrirkomulag í jarðræktarlögum, skemmst að fara til ársins 1992, að þá auðvitað gæti hugsanleg löggjöf, sem myndi kveða á um afnám jarðræktarlaganna, ekki ná til áranna 1992, 1993 og 1994. Það hlyti því að fylgja slíkri ákvörðun --- ef hún er einhvers staðar á ferli þá væri gott að fá að sjá hana --- það hlyti því að fylgja slíkri ákvörðun hvernig uppgjörinu yrði háttað á því sem áfallið er. Þess vegna er það ein markleysan til viðbótar og alveg óskiljanleg, ekki síst þegar í samkomulaginu er vitnað til hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh., sem hafa bæði þingreynslu og reynslu af framkvæmd löggjafar, að það skuli vera sagt hér berum orðum í þessu reyndar marklausa plaggi, að það eigi að afnema lögin bótalaust. Að það eigi ekki að gera upp við bændur fyrir árin þrjú sem út af standa enn þá.
    Þetta eru grundvallaratriðin í þessu máli. Þessi texti, 04 Landbúnaðarráðuneyti, er eins og hann hefur borið að, afskaplega þénanlegur. Hann er afskaplega mikilvægur þó að hann sé svona ómerkilegur og ómarkviss. Vegna þess að auðvitað segir hann frá því hvað menn hafa ætlað sér í þessum málum, þó að sumu af því og kannski flestu hefði ekki verið hægt að koma fram nema með því að binda það í lögum. Þessi framsetning er þess vegna afar þýðingarmikil vegna þess sem hún segir ekki. Gildi hennar byggist á því sem hún segir ekki frá. Og eftir því verð ég nú að gangast að menn snúi nú við vösunum og leiti eftir því hvort þeir finni ekki þær tillögur sem hafa átt að fara eða eiga að fara inn í aðra þá löggjöf, væntanlega, sem hér er fjallað um og felur í sér afnám jarðræktarlaganna. Þetta er auðvitað grundvallaratriði, þessi gagnlega grein, sem hefur leitt þessa umræðu fram, sem hefur kallað eftir þessum spurningum. Má auðvitað standa í þessu nál. ef þeir sem hafa sett hana þar inn hafa geð í sér til þess að láta hana vera þar, jafnmarklausa og rangláta og gagnslausa eins og hún er, nema að því einu að hún hefur upplýst það sem ekki stendur í henni, það eru fyrirætlanirnar um jarðræktarlögin. Og ég ber afar miklar brigður á það að fyrir þeim fyrirætlunum sé meiri hluti á Alþingi Íslendinga.
    Sannleikurinn er sá að nógan úreldingarsvip er búið að setja á íslenskan landbúnað þótt við bætum því ekki við að menn eigi hér í þessu landi, sem er alls staðar í öllum menningarlöndum forsenda þess að það sé rekinn nútímabúskapur, að menn eigi ekki að hætta því að rækta og bæta landið okkar. Það er auðvitað grundvallaratriði fyrir því að það sé hægt að tala um landbúnað að það sé viðhöfð öflug ræktun í þeirri grein.
    Það var afar athyglisvert á fundi landbúnaðarnefndar í gærmorgun, þar sem sérstaklega var fjallað um vistvæna framleiðslu, (Gripið fram í.) að grundvöllur að þeirri framleiðslu er góð ræktun, þ.e. að ræktunarástandið sé gott, að ræktunin skili því sem henni er eðlilegt. Og að ganga gegn þessum skoðunum og þessum staðreyndum með þessum hætti er auðvitað skelfilegt. Það hlýtur auðvitað að skoðast m.a. í því ljósi að við höfum verið að leggja áherslur á það að rækta og bæta landið okkar og satt að segja erum við nú ekki of rismikil í þeim efnum um þessar mundir, með tilliti til afgreiðslu þeirra mála í fjárln., þó að ekki sé nú bætt einu svipuhögginu við í þessum efnum með því að ætla sér að afnema jarðræktarlögin.
    Ég kalla því mjög eindregið eftir því, og mér sýnist að það geti verið hér margir til svara, hér er hæstv. fjmrh., hæstv. landbrh. og hv. varaform. fjárln. Ég kalla mjög eindregið eftir því sem greinin 04 í nál. hv. meiri hluta fjárln. segir ekkert um, hvernig eigi að koma þeim áherslum sem þar eru í framkvæmd. Ég hef sýnt fram á það með algjörlega ótvíræðum hætti að greinin sjálf er út í hött. Í henni felst ekkert

bitastætt. Efnislega þarf að koma þeim áherslum sem þar eru settar fram í löggjöf ef þær eiga að hafa eitthvert gildi. Og ég spyr: Er það ætlunin og þá með hvaða hætti verður það gert? Afstaða mín varðandi það frv. til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir ræðst af þeim svörum, ótvíræðum svörum sem ég spyr um og leita eftir að fá hér við þessa umræðu. Einhvern tíma áður en atkvæðagreiðslan fer fram nægir mér, virðulegi forseti, ef þeir sem í hlut eiga eru ekki tilbúnir að gefa þau svör þegar í stað.
    Ég hef lokið máli mínu.