Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 12:18:33 (3005)


[12:18]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil mælast til þess að hæstv. landbrh. sé hér í salnum og fylgist með þessari gagnmerku umræðu sem hér fer fram. Það er vitaskuld algjörlega óásættanlegt að vera að ræða þessi mál og hafa hæstv. landbrh. ekki hér við. Ég vil bera fram þá ósk og skýlausu kröfu um að hæstv. landbrh. svari því alveg skýrt hvað standi að baki þessum orðum sem hér hefur verið vitnað til, en svo segir: ,,Jafnframt vilja sömu aðilar láta það koma skýrt fram að ekki verði um frekari fjárveitingar að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum.``
    Landbrh. getur ekki vikist undan því að svara því, er hann sammála því sem hér stendur? Og er hæstv. landbrh. sammála því að brjóta hér á bændum? Og alveg eins og hv. þm. Egill Jónsson sagði, það er verið að afnema jarðræktarlögin með þessum gjörðum. Hér er hæstv. landbrh. kominn og ég vænti þess að hann komi hér í stólinn og skýri mál sitt. Hann skuldar okkur svör.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill vekja athygli á því að hv. þm. eru í andsvari við hv. 3. þm. Austurl. undir þessum kringumstæðum.)