Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 12:25:51 (3011)


[12:25]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það kom skýrt fram í gær í máli hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Austurl. að það gengur alveg fram af þeim vinnubrögð hér á Alþingi nú og það held ég að sé sameiginlegt með flestum sem um þau mál hugsa og vilja skilja. Það hefur gengið svo hér það sem af er þessu þingi að þau frumvörp frá ríkisstjórninni sem nauðsynleg eru til þess að afgreiða fjárlög hafa komið seint fram og verið illa undirbúin og þegar þau hafa komið til nefnda þingsins þá gengur illa að ná þar samkomulagi milli stjórnarliðsins og afgreiðslur tefjast þar líka. Síðan þegar nefndir hafa afgreitt málin frá sér og þau koma hér inn í þingið þá upphefjast deilur milli stjórnarliða þar sem ekkert samráð hefur verið haft um afgreiðslu nefndarinnar, virðist vera, innan viðkomandi þingflokka.
    Það er því alveg ótrúlegt stjórnleysi sem einkennir þetta þinghald af hálfu stjórnarflokkanna. Það á ekki við um forseta heldur er það stjórnarflokkanna sem eiga og taka á sig ábyrgð á framgangi mála hér. Það er kannski táknrænt að hæstv. forsrh. hefur lítið sést hér í þinginu undanfarnar vikur og það er ekkert nýtt þó að stóll hans sé auður í dag. Og ef hann birtist hér þá lætur hann fara heldur lítið fyrir sér og gengur með veggjum. En það er að sjálfsögðu staðfesting á því að það vantar alla verkstjórn af hálfu stjórnarflokkanna við þinghaldið.
    En ég óskaði eftir því áður en ég hóf mál mitt að hæstv. landbrh. yrði hér viðstaddur þar sem ég ætla ekki að fara út í mörg atriði þessa frv. til fjáraukalaga heldur aðeins víkja að því sem hér hefur verið rætt um áður, um jarðræktarframlög og viðhorf mitt til þeirra ákvæða. Hv. 3. þm. Austurl. ræddi hér um þetta mál áðan og ég átti dálítið erfitt með að átta mig á öllu sem hann sagði því að mér fannst það vera mótsagnakennt. Í öðru orðinu fagnaði hann þessari yfirlýsingu sem meiri hluti fjárln. gerir í umboði hæstv. landb. og fjmrh., en í hinu orðinu taldi hann hana marklausa. Eitt held ég þó að ekki fari á milli mála að felist í þessari yfirlýsingu. Það er stefna Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum. Að hinu leytinu get ég tekið undir með hv. þm. að að sjálfsögðu hlýtur þessi setning sem hér er að vera marklaus og ég ætla að lesa enn einu sinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Meiri hluti fjárln. hefur ákveðið í samráði við landbrh. og fjmrh. að leggja til 40 millj. kr. framlag vegna áburðarhúsa og vatnsveitna sem byggð voru á árunum 1992 og 1993, enda uppfylli jarðabætur þessar skilyrði jarðræktarlaga um greiðslur framlags. Jafnframt vilja sömu aðilar láta það koma skýrt fram að ekki verði um frekari fjárveitingar að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum.``
    Að mínu mati hefur þetta ekkert gildi en engu að síður vil ég spyrja hæstv. landbrh. hvaðan hann telji sig hafa vald til að setja svona hrokafulla yfirlýsingu fram. Í jarðræktarlögum er kveðið á um það fyrir hvaða framkvæmdir bænda skuli njóta framlaga og þar var sérstaklega miðað við tvennt, það sem væri til hagræðingar í búrekstrinum og nýjunga eins og kornræktina sem hv. 3. þm. Austurl. m.a. nefndi áðan. Þessum ákvæðum hefur ekki verið breytt frá árinu 1989. Hins vegar var í bandormi, sem samþykktur var um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, sett inn ákvæði um breytingar á jarðræktarlögum sem er

þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við 12. gr. laganna eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 65/1989 bætist ný málsgrein, 3. mgr., sem orðist svo:
    Allur réttur til framlaga samkvæmt lögum þessum er háður fjárveitingu Alþingis.``
    Í bréfi frá landbn. sem hún ritaði sem umsögn landbn. um þetta frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vísað er til kafla úr áliti nefndarinnar, fjárlaganefndar Alþingis, fskj. 1 og umsagnar Búnaðarfélags Íslands um framkvæmd jarðræktarlaga, en þar koma fram mikilvægar skýringar um stöðu þessara mála. Nefndin vekur athygli á að skv. 4. gr. frv.,`` þ.e. þessari grein sem ég var að lesa áðan, ,,ef að lögum verður, er tekinn upp sami háttur og árið 1988 þegar greiðslur ríkissjóðs vegna jarðræktarframlaga voru bundnar fjárveitingu á fjárlögum.``
    Þá fóru greiðslur til jarðræktarframlaganna eftir fjárveitingu á fjárlögum. Stundum var fjárveitingin ónóg á viðkomandi ári en þá var skuldin greidd síðar. Ef ætlunin hefði verið með breytingunni í bandorminum um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992 að afnema ákvæði jarðræktarlaganna um framlög hefði að sjálfsögðu þurft að gera meiri breytingar en þetta ákvæði um greiðsluskyldu ríkissjóðs. Þar er aðeins vitnað til fjárlaganna sem fjalla um greiðslur til ríkissjóðs á hverju ári. Eftir standa því óbreytt ákvæðin um jarðræktarframlögin sem ríkið skal inna af hendi hvenær svo sem fjárveiting verður til þess á fjárlögum.
    Ég sagði að ég vildi spyrja hæstv. landbrh. að því hvaðan hann hefði vald til þess að gefa þá yfirlýsingu, sem ég las upp, að um frekari fjárveitingar verði ekki að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra vitni til þeirra laga en að mínu mati er um algera lögleysu að ræða því að það er Alþingi eitt sem hefur slíkt vald og það er alveg ótrúlegt að hæstv. landbrh., hæstv. fjmrh. og hinir sex þingmenn stjórnarliðsins, sem skipa meiri hluta fjárln., skuli ganga svo langt á þingræðið að ætla algerlega að fótumtroða lög Alþingis.
    Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni en ég vænti að hæstv. landbrh. gefi skýr svör við því hvaðan hann hefur þetta vald og hvernig hann ásamt meðreiðarsveinum sínum geti gefið fyrirmæli um hvernig þessar krónur verði notaðar þvert á ákvæði gildandi laga.