Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:24:33 (3026)


[14:24]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að hætta mér úr á það svið sem hefur verið til umræðu undanfarnar klukkustundir þar sem mörg gullkorn hafa flogið um sali að ekki sé nefnt kaplataðið sem hefur verið nefnt í þessu samhengi líka þó ég telji að sú umræða sé allrar athygli verð og menn hafa sveiflað sér á milli stórra tilvitnana í íslenskar bókmenntir og það er þakkarvert að menn geri það.
    Það sem ég ætla að ræða er aðallega uppgjör Erfðafjársjóðs við Framkvæmdassjóð fatlaðra þar sem mér sýnist að standi út af nokkrir tugir milljóna kr. Ég hafði hugsað mér að inna hæstv. fjmrh. eftir því hvernig hann sæi fyrir sér að það mál yrði afgreitt, ekki síst með hliðsjón af því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt hér brtt. sem gerir ráð fyrir því að hækka framlagið í Framkvæmdasjóð fatlaðra á þessu ári um 85 millj. kr. Má auðvitað segja að það sé út af fyrir sig ekki seinna vænna fyrir hv. þm. að flytja um það tillögu í lok þess árs sem hófst með því að hún stýrði félmrn. og gerði það reyndar um margra mánaða skeið.
    Hvernig háttar þessu til, hæstv. forseti? Þannig er að á hverju einasta ári hefur Erfðafjársjóður eða erfðafjárskattur skilað tekjum sem eru meiri en hafa numið áætlunum í fjárlögum á hverjum tíma. Þannig var það t.d. að í lok ársins 1993 skuldaði Erfðafárssjóður, þ.e. ríkissjóður, Framkvæmdasjóði fatlaðra 54,3 millj. kr. Hver var þá félmrh.? Það var hv. 12. þm. Reykv. Og það voru aldrei fluttar neinar tillögur eða fyrirspurnir á Alþingi á því ári eða um síðustu áramót til að tryggja það að þessir peningar skiluðu sér örugglega í þágu þjónustukerfis fatlaðra. Það er athyglisvert en skýrist af því að þessir peningar hafa alltaf verið taldir eign Framkvæmdasjóðs fatlaðra hvað svo sem leið málinu og yfirlýsingum í því að öðru leyti. Af því að þessi upphæð hefur aldrei verið skert með lánsfjárlögum, hún hefur aldrei verið skert í ,,þrátt-fyrir-kafla`` lánsfjárlaga heldur hefur hún einungis verið nefnd á fjárlögum og þar af leiðandi hefur hún ekki verið talin hafa takmarkandi lagagildi. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh., ef hann gæti séð af nokkrum mínútum hér í salnum, að því hvernig hann hugsar sér að afgreiða þetta mál núna. Staða Erfðafjársjóðs er nú orðin þannig að um síðustu mánaðamót var hún jákvæð um 82 millj. kr. og forráðamenn Erfðafjársjóðs bíða eftir því að borga þessa peninga inn í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Segja má að þá vanti bara fyrirmæli í þeim efnum sem eru almenn fyrirmæli. Ef hins vegar tillaga hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur yrði tekin fyrir upp á 85 millj. kr. og segjum að hún yrði felld þá þýðir það það að með því væru menn að skerða tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem þessu nemur og þess vegna tel ég að tillaga hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sé óþarfi miðað við þá venju sem uppi hefur verið í þessum efnum. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.: Er það ekki öruggt að Framkvæmdasjóður fatlaðra fær undanbragðalaust allar tekjurnar af erfðafjárskatti á árinu 1994, eins og á síðasta ári svo sem hefur í raun og veru alltaf verið? Þetta er sú spurning sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ráðherra. Og tilefni spurningarinnar er þessi tillaga hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur en líka sú staðreynd að ég hef fengið minnisblað um þetta mál frá Ríkisendurskoðun þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í fjárlögum árið 1994 er gert ráð fyrir að erfðafjárskatturinn gefi 300 millj. kr. og gangi til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Í lok nóvembermánaðar nam innheimta skattsins hins vegar 336 millj. kr. Áætla má [segir Ríkisendurskoðun] að skatturinn gefi á árinu rúmlega 350 millj. kr.``
    Síðan segir: ,,Samkvæmt ársreikningi sjóðsins í árslok 1993 nam skuld hans við Framkvæmdasjóð fatlaðra 54,3 millj. kr. [þ.e. um síðustu áramót]. Sjóðstaða Erfðafársjóðs var mjög sterk í lok nóvembermánaðar og nam hún 82 millj. kr.``
    Það sem þetta segir með öðrum orðum, hæstv. forseti, er það að um síðustu áramótt átti Framkvæmdasjóður fatlaðra inni hjá Erfðafjársjóði 54,3 millj. kr. Ég ætla líka að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig hefur verið farið með þá inneign? Og ég spyr hann alveg sérstaklega um það hvort félmrn. hafi rukkað þessa peninga um síðustu áramót þegar það lá fyrir að þessir fjármunir væru til í raun og veru af því að erfðafjárskatturinn hafði skilað miklu meiri peningum heldur en gert hafði verið ráð fyrir. Rukkaði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, þáv. félmrh., fjmrh. um þessa peninga um síðustu áramót upp á 54,3 millj. kr.?
    Síðan hefur það gerst að það hefur bæst við allt þetta ár þannig að inneign Framkvæmdasjóðs fatlaðra hjá Erfðafjársjóði er ekki 54,3 millj. kr. heldur stefnir hún í að verða um næstu áramót skv. upplýsingum Ríkisendurskoðunar 104,3 millj. kr. ef ekkert verður að gert. Þess vegna er það ljóst að fatlaðir eða málaflokkurinn þjónusta við fatlaða á þarna inni hjá ríkissjóði um næstu áramót, ef ekkert gerist, í kringum 100 millj. kr.
    Þeir sem sitja í þessum sal ættu því að fallast á tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að ná í þessa peninga og helst meira til. Vandinn er hins vegar sá að ég hef út af fyrir sig ekki tilfinningu fyrir því að stjórnarmeirihlutinn hafi hugsað sér að samþykkja þessa tillögu þó hún sé flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem stundum hefur flutt tillögur í nafni þessarar ríkisstjórnar áður en í öðru samhengi. Svo að við sem erum að sinna þingstörfum og reyna að átta okkur á stöðu einstakra mála eins og Framkvæmdasjóði fatlaðra erum í nokkrum vanda. Við erum kannski ekki síst í vanda vegna þess að á síðasta ári samþykkt félmrh. að taka 25% af Framkvæmdasjóði fatlaðra í rekstur. Nú er gert ráð fyrir því að taka 40% ef ég man rétt. Og það er auðvitað alveg ljóst að úr því að verið er að tala um að taka 40% á árinu 1995 og hækka það þannig frá 25% á árinu 1994 þá verður Framkvæmdasjóður fatlaðra og stjórn hans að vera miklu harðari í að sækja peningana í Erfðafjársjóð en áður. Fari svo að hér verði um að ræða 100 millj. kr. sem komi allar undanbragðalaust til viðbótar á þessu ári fyrir árin 1993 og 1004 þá má segja að sjóðurinn standi í raun og veru þrátt fyrir skerðingarákvæði á þessu ári allvel. Hins vegar er ljóst að ef skerðingarákvæðinu verður beitt á næsta ári þá stendur hann hins vegar mjög illa því 40% er þung byrði að bera.
    Svo er líka hitt, hæstv. forseti, sem er þriðja spurning mín til hæstv. fjmrh.: Af hvaða tölu er skerðingin? Er hún af fjárlagaáætluninni eða er hún af upphækkuðu tölunni? Er hún sem sagt af tekjum Framkvæmdasjóðs fatlaðra eftir full skil erfðafjárskatts eða þau skil erfðafjárskatts sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.? Á þessu er gríðarlegur munur. Ef við tökum t.d. árið í ár þá myndu 40% af fjárlagatölunni vera 120 millj. en 40% af fullum skilum er aftur á móti skerðing upp á 160 millj. Á því er regin munur. Við þessu þarf líka að fást svar. Ég held að menn séu hér að hafa af Framkvæmdasjóði fatlaðra annars stóra fjármuni. Ég er ekki að segja að menn hafi ætlað sér það en mér sýnist á öllu að málið sé óuppgert og óklárt. Þess vegna legg ég þessar fyrirspurnir hér fram til hæstv. fjmrh. um málið. Þ.e. sem sagt í fyrsta lagi: Er ekki ætlunin að gera þetta upp með svipuðum hætti og verið hefur? Á skerðingin að vera hlutfall af fjárlagatölunni eða endanlegu tölunni? Hefur félmrn., undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur m.a., staðið í hörðum innheimtuaðgerðum við fjmrh. í þessu máli fyrr á árinu 1994?
    Ég er svo með hér undir höndum reikninga Erfðafjársjóðs, bæði rekstrarreikning og efnahagsreikning, fyrir árin 1992 og 1993. Þar kemur það fram að það hefur alltaf staðið talsvert út af sem forráðamenn Framkvæmdasjóðs fatlaðra hafa reiknað með að skilaði sér. Spurningin er sem sagt þessi: Hvernig verður þetta núna? Ég spyr í tilefni af því að fyrrv. hæstv. félmrh., sem ætti að þekkja þetta betur en allir aðrir hér í salnum, hefur flutt ákveðna brtt. og menn þurfa að átta sig á því hvernig þeir ætla að greiða atkvæði um þá tillögu.