Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 14:39:50 (3031)


[14:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Virðulegur forseti. Við þökkum forseta þessar upplýsingar. Ég hafði einmitt ætlað að ræða að hluta til atriði sem varða hæstv. landbrh. en satt best að segja, hæstv. forseti, þá eru þau svo þaulrædd orðin að ég veit ekki hversu miklu er ástæða til að bæta við í sjálfu sér. Ég verð að segja alveg eins og er að ég legg varla í að fara að fara inn í þvælu stjórnarliðanna og sérstaklega Sjálfstfl. um umræður um landbúnaðarmál og málefni Byggðastofnunar á sl. tveimur sólarhringum. Mér finnst sú uppákoma öll vera með þeim endemum að það sé varla orðum að því eyðandi satt best að segja.
    Í fyrsta lagi er frágangurinn á því máli til háborinnar skammar fyrir alla aðila, það verður að segja það alveg eins og er. Að menn skuli ekki geta komið sér niður á það hvað þeir ætla að gera í þessum efnum og gengið þannig frá því í formi samþykkta í sínum þingflokkum og nál. og greinargerð að það sé ljóst hvað verið er að tala um og um hvað sé samkomulag og hvað ekki. Staðreyndin er náttúrlega sú að þetta er meira og minna búið að halda uppi þinghaldinu í rúman sólarhring þessi upphlaup út af smávægilegum liðum, ef svo má að orði komast, þ.e. í tölum talið a.m.k. sem þarna eiga í hlut við afgreiðslu fjaraukalaga hér.
    Ég vil víkja aðeins að fjárframlagi til Byggðastofnunar vegna vanda á sauðfjárræktarsvæðum sem á sér forsögu í þeim ákvæðum búvörusamningsins að í viðauka hans var gert sérstaklega ráð fyrir því að Byggðastofnun yrði lagt til fé til að stuðla að og styðja aðra atvinnuuppyggingu á sauðfjárræktarsvæðunum í stað þess samdráttar sem þar var ákveðinn eða umsaminn í búvörusamningi. Það hefur komið í ljós því miður að þessi ákvæði hafa hingað til verið gróflega vanefnd af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Og það má kannski segja að eina umtalsverða uppskeran við þessar umræður sé sú að þessar vanefndir eru nú loksins viðurkenndar að hluta til í formi fjárframlaga til Byggðastofnunar. Þar er þó engan veginn nóg að gert, þ.e. það vantar enn mikið upp á að því fjármagni hafi verið skilað sem viðauki I, bæði undirritaður af fjmrh. og landbrh., gerir ráð fyrir að varið sé í þessu skyni. En í þessu felst þó viss viðurkenning og ég treysti því að það sé ætlunin að nota það sem eftir stendur samningstímans til að kvitta þessa reikninga þannig að Byggðastofnun hafi fengið þessar fjárveitingar að fullu áður en samningstíminn er uppi og þá í formi framlaga. Ég lýsti þeirri skoðun minni hér að næturlagi, hæstv. forseti, það mun hafa verið við 2. umr. fjárlagafrv., að það væri minn skilningur sem þess ráðherra sem gekk frá samningunum að auðvitað hefðu menn þarna verið að tala um framlög til Byggðastofnunar. Og ég held að það liggi alveg í hlutarins eðli þegar það er skoðað annars vegar í samhengi við hin ákvæði viðaukans, þar sem í öllum tilvikum eru á ferðinni framlög til þeirra verkefna sem þar greinir og hins vegar í ljósi þess að Byggðastofnun gerir engar kúnstir með lánsfé af þessu tagi gagnvart þeim vanda sem við er að glíma. Það var og er öllum ljóst að það er ekki það sem á skortir sérstaklega í vandamálum þessara svæða og atvinnulífi þar að menn geti ekki út af fyrir sig slegið lán. Nei, það sem vantar er fjármagn, nýtt fjármagn í stað tekjusamdráttarins sem þarna er að verða til að kosta aðra atvinnuuppbyggingu í formi hlutafjárstuðnings, í formi styrkja og formi víkjandi lána og annarra slíkra hluta. Ég tel að það hafi verið algerlega ljóst af umræðum um þetta mál á

sínum tíma að menn ætluðust ekki bara til þess að Byggðastofnun stuðlaði að þessu verkefni með fjármunum sem næmu þessum upphæðum og þar með búið heldur ætluðust menn til þess að Byggðastofnun tæki þetta verkefni að sér sérstaklega, hefði í því skyni í fyrsta lagi framlög sem þessu næmi og í öðru lagi gæti hún til viðbótar stutt við þau verkefni með lánveitingum og annarri fyrirgreiðslu. Þannig var þetta auðvitað hugsað. Enda hljóta menn að sjá að ef svo væri ekki þá væri þarna um smámuni að ræða sem menn hefðu tæplega nennt að setja á blað. Það dettur vonandi engum heilvita mönnum í hug að menn hefðu talið það eiga erindi í viðauka við búvörusamning þó að Byggðastofnun ætti náðarsamlegast að lána á sjö ára tímabili 250 millj. í eitthvert svona verkefni. Það hefði verið svo fráleitt að engu tali tekur.
    Þetta, hæstv. forseti, vil ég láta koma alveg skýrt fram og það þyrfti að vera ljóst hvernig hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn lítur til að þessi liður standi nú með þeirri úrlausn sem vonandi verður í fjáraukalagafrv. og ef ég man rétt, fjárveitingu upp á einar 20 millj. kr. í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. En ég held að það sé þó alveg ljóst að það vantar enn mikið upp á að þær 250 millj. kr., ef mig misminnir ekki, sem þarna áttu að skila sér.
    Í öðru lagi um jarðræktarframlögin, hæstv. forseti. Ég endurtek að það er með hálfum huga að maður blandar sér í þá umræðu eins og hún er orðin. Ég ætlaði aðallega þegar ég bað um orðið að leiðrétta eitt sem kemur ranglega fram í texta í nál. meiri hlutans á þskj. 443. Það virðist ætla að ganga seint fyrir mönnum að átta sig á í hvaða átt og hvernig þessi mál hafa gengið til. Þar segir á bls. 3 undir liðnum 04 Landbúnaðarráðuneyti, með leyfi forseta:
    ,,Í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992 var lögum breytt í þá veru að allur réttur til framlaga samkvæmt jarðræktarlögum væri háður fjárveitingu Alþingis. Með þessu ákvæði var verið að tryggja að frá og með árinu 1992 myndaðist ekki sjálfkrafa réttur til framlaga samkvæmt jarðræktarlögum.``
    Þetta orðalag er ekki rétt. Þessi breyting var í gildi gengin áður með breytingum á jarðræktarlögunum sjálfum sem urðu á árinu 1989 þegar það var sett í lög að menn ættu ekki rétt á framlögum nema sækja um það sérstaklega, þá voru viðkomandi framkvæmdir teknar út og samþykktar styrkveitingar til þeirra. Og það lá í hlutarins eðli að þær styrkveitingar gátu ekki komið til nema fjárveitingar væru fyrir hendi nema menn samþykktu styrki umfram fjárveitingu og mynduðu þannig skuld en það höfðu menn auðvitað í hendi sér. Að þessu leyti er þetta orðalag rangt. Og það er slóðaskapur að hafa ekki sögu mála af þessu tagi á hreinu þegar verið er að ganga frá þingskjölum af þessu tagi. Ég mótmæli ekki hinu að auðvitað var til viðbótar í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 undirstrikað að rétturinn væri svo sérstaklega háður fjárveitingum Alþingis hverju sinni og má segja að sama ákvæðið hafi verið tvítekið að þessu leyti. En þetta er alla vega svona, hæstv. forseti.
    Ég tel nauðsynlegt að menn hafi þennan bakgrunn málsins á hreinu. Þetta var í tengslum við, eins og áður hefur komið fram, aðgerðir sem ráðist var í á árunum 1989 og 1990, að ná samningum við bændur um að gera upp gríðarlegan skuldahala sem myndast hafði á árunum þar á undan vegna þess að óbreytt jarðræktarlög voru í gildi og mynduðu sjálfkrafa á þeim tíma kröfur á ríkið um styrki, en menn voru aldrei menn til þess að leggja fram nóga peninga til þess að borga þá styrki. Og svo koma hv. þm. hér og væla undan því að á þessum málum hafi síðan verið tekið og þeim komið í skil. Og það hv. þm., stuðningsmenn ríkisstjórna á árunum eftir 1980 og fram til 1988 þegar einmitt þessi óráðsía viðgekkst og skuldahali myndaðist. Ef það eru einhverjir sem eiga að skammast sín í þessu máli þá eru það þeir sem settu kíkinn fyrir blinda augað, létu jarðræktarlögin gilda óbreytt án þess að nokkurn tíma á nokkru ári frá líklega 1984 eða 1985 væri lagt fram nóg fé í að gera upp kröfurnar á ríkissjóð sem þannig mynduðust. Það er auðvitað bjálfadómur.
    Ég veit ekki til að mynda hvort hv. þm. Eggert Haukdal hefur greitt atkvæði gegn fjárveitingum til jarðræktarlaga á þessum árum þegar skuldirnar voru að myndast eða lagt til með brtt. að þær yrðu hækkaðar svo að ekki sé nú minnst á kempuna hv. 3. þm. Austurl. sem alltaf er að vinna sigra eins og kunnugt er. Hver einasti atburður í undanhaldi hans í landbúnaðarmálum er stórsigur í hans eigin augum. Í hvert skipti sem hann er lagður hér að velli af krötunum þá er það stórsigur fyrir hv. þm. Egil Jónsson. Og síðasta stórsigurinn vann hann í dag þegar hann fékk það staðfest að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar fælist í reynd það að afnema jarðræktarlögin hvað þessa styrki snertir. Þetta orðalag bæri að skilja þannig að þetta yrði síðasta greiðslan í Íslandssögunni í formi styrkja samkvæmt ákvæðum jarðræktarlaga. Þá hafði nú hv. 3. þm. Austurl. fyrst unnið stórsigur, hv. þm. Egill Jónsson. Öllu snautlegri verður ekki framganga manna hér, hæstv. forseti.
    Ég vil svo láta það koma fram efnislega um þann þátt þrætunnar að mér finnst það miður hvernig menn standa að þessu. Í fyrsta lagi að enn á ný skuli hafa myndast skuld eða uppsöfnuð þörf fyrir styrki sem nú er verið að nokkru leyti að reyna að bæta úr með þessu 40 millj. kr. framlagi, sem ég ætla ekkert að lasta eða vanmeta, en að hinu leytinu finnst mér þá aumingjalegt, svo ég segi ekki meira, hæstv. forseti, að taka ekki jarðræktarlögin og breyta þeim og ákveða í hvaða tilvikum, ef einhverjum, styrkir geti komið til greina. Það er þannig sem á að vinna að þessu, hæstv. forseti. Ég vil að hæstv. fjmrh. heyri það svo ég reyni nú að vanda mig og tali nú til hans persónulega. En ekki með einhverri yfirlýsingu af þessu tagi sem út af fyrir sig er út í loftið nema hún endurspegli vilja meiri hluta löggjafans. Og það má náttúrlega draga í efa eins og þeir tala hér sumir hverjir hv. þm. Sjálfstfl.

    Eini varanlegi og formlega rétti frágangurinn á þessu máli væri því að leggja fyrir Alþingi brtt. við jarðræktarlög og ganga þar frá því hvort og í hvaða tilvikum menn gætu hugsað sér að einhverjir styrkir kæmu til greina og hvenær ekki. Ég spyr til að mynda að því: Er það virkilega svo að menn telji að það geti ekki verið ástæða til þess að styrkja t.d. skjólbeltarækt? Nú hefur það verið einn af þeim fáu liðum sem menn reyndu undanfarin ár a.m.k. að eiga einhverjar krónur í. Þetta voru fáeinar milljónir kr. á ári þar sem verið var að stuðla að því að skjólbeltaræktun ykist í sveitum. Sama má til að mynda segja um lagnir vatnsveitna. Ég held að mönnum sé alveg ljóst að þeir tímar eru ekki uppi að það séu settir stórkostlegir fjármunir, ég tala nú ekki um hundruð milljónir kr. eins og gert var þegar mest var, í styrki til almennra framkvæmda hvort sem heldur eru húsbyggingar, jarðrækt, skurðgröftur eða annað því um líkt. Þeir tímar eru ekki uppi. En hitt er annað mál hvort það eigi að ganga svo langt í þessum efnum að afgreiða það með yfirlýsingu einhvers staðar úti í bæ að fella í reynd þessi ákvæði jarðalaganna úr gildi og að þau skuli ekki koma til framkvæmda um aldur og ævi, add infinitum verði þau ákvæði óvirk. En ég skil það svo að sú hafi orðið niðurstaðan af orðaskiptum manna í morgun, hv. 3. þm. Austurl., hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. og er það þá mikill pyrrhosarsigur sem hv. 3. þm. Austurl. hefur þar unnið.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, hefði ég haft á því áhuga ef til að mynda annaðhvort hæstv. fjmrh. eða hv. formaður fjárln. eiga eftir að taka til máls í umræðunni að það verði gerð grein fyrir hallanum á ríkissjóði eins og hann stefnir á yfirstandandi ári og jafnframt hver sé niðurstöðutala ríkisreiknings á árinu 1993. Mér finnst það eðlilegt þegar verið er að ganga frá fjáraukalögum væntanlega síðustu og vonandi, a.m.k. fjáraukalögum þessa árs, fyrir árið 1994, þá sé gerð grein fyrir grundvallarstaðreyndum málsins af þessu tagi, en ég tók ekki eftir því að það væri gert í byrjun.
    Síðan er einn þáttur enn sem orðið hefur mikið að umræðuefni, hæstv. forseti. Það eru fjárveitingar til Byggðastofnunar til að leysa vanda smábátasjómanna sem hafa aflamark. Mér skilst að menn hafi komist að þeirri gagnmerku niðurstöðu í meiri hlutanum að 20 millj. muni skipta sköpum og það gera gæfamuninn ef Byggðastofnun fái heilar 20 millj. til ráðstöfunar í þessu skyni. Ég verð að segja alveg eins og er að úr því að menn eru að þessu á annað borð þá finnst mér þetta ansi nánasarlegt svo ekki sé meira sagt. Auðvitað gerir Byggðastofnun engar rósir gagnvart vanda smábáta á aflamarki ef hér er átt við smábáta þó ekki væri nema bara báta undir sex tonnum sem eru þó enn þá líklega undir 200--300 talsins, um 20 millj. kr. Það er bara næstum að segja hlægilegt, en því miður ekki í sjálfu sér því að hér er dauðans alvara á ferðum. Vandi þessara aðila er alveg gríðarlegur. Hann er það vegna þess að þeir hafa tekið á sig af fullum þunga og meiri þunga en nokkur annar hópur útgerðar í landinu skerðinguna á aflamarki í bolfiski og sérstaklega þorski af því að þessi hópur er algerlega háður þannig veiðum og getur ekki veitt rækju, sótt í Smuguna eða annað því um líkt eins og stærri skip geta til að bjarga sér.
    Síðan er það viðbótarstaðreynd í þessu máli að eins og lög um stjórn fiskveiða voru afgreidd með áframhaldandi tilvist krókaleyfanna þá er að eiga sér stað alveg óverjandi mismunun í aðstöðu þessara hópa útgerðarmanna, annars vegar smábátamannanna sem völdu aflamark og hins vegar þeirra sem eru á krókaveiðum. Meðferðin á þessum hópi bátaútgerðanna og smábátaútgerðanna á aflamarki er að mínu mati eitthvert allra ljótasta dæmið um mismunun og misrétti sem finnst á síðari árum í stjórnsýslunni. Það er þannig, því miður, og eiginlega algerlega með ólíkindum hvernig sá hópur hefur orðið út undan, virðist einhvern veginn hafa átt sér fáa formælendur eða hagsmunagæslumenn og tomma lítið á móti þeim sem stærri og sterkari voru í þeim leik.
    Ég segi bara aftur, hæstv. forseti, að mér finnast þessar 20 millj. óskaplega nánasarlega skammtaðar í þetta verkefni þó að ég sé ekki að lasta það í sjálfu sér að menn sýni lit og viðleitni en það er spurning hvað menn vilja merkja sig litlu í svona tilvikum. Hefði þarna verið á ferðinni einhver myndarlegri upphæð ásamt með því að það hefði verið eitthvert skaplegt samkomulag um það hvernig ætti að fara með þessi mál þá hefði það verið annað mál. En eins og kunnugt er þá ætlaði allt vitlaust að verða þegar formaður sjútvn. þingsins, sem svo vill til að er nú jafnframt formaður stjórnar Byggðastofnunar, sá hvernig átti að ganga frá þessu hér í gær. Það er búið að þynna út þetta orðalag, skilst mér, þannig að menn hafa eitthvað róast, en það segir sína sögu og hana ekki fagra að svona skuli vinnubrögðin vera. Menn tala ekki saman um þessa hluti, stofnuninni sem þarna er ætlað að vinna verkefnin, eða a.m.k. stjórnarformanni hennar, eru ekki sýnd þau áform fyrir fram þannig að við fáum uppákomur af því tagi sem urðu í þingsalnum í gær.
    Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta, hæstv. forseti, og kannski óþarflega mörg um ekki í sjálfu sér merkilegra mál en venjan er að líta svona fjáraukalagafrv.