Fjáraukalög 1994

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 15:01:26 (3033)


[15:01]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi orðalag breytinganna 1992 um jarðræktarlögin þá var ég í sjálfu sér ekkert að deila um það við hæstv. fjmrh. Það sem ég var að vekja athygli á og undirstrika var að í reynd var búið að gera þessa breytingu með breytingum á jarðalögunum sjálfum fjórum árum áður. Ég tel að ef menn hefðu síðan staðið við eðlilega framkvæmd þeirra hluta þá hefði í sjálfu sér breytingin 1992 aldrei þurft að skipta neinu máli vegna þess að sjálfvirknin var afnumin 1989, hin sjálfvirka kröfumyndun á ríkissjóð var þá afnumin með því að menn urðu að sækja um styrkina og fá samþykktar umsóknir sínar áður en rétturinn myndaðist. Ég vildi bara að því væri haldið til haga og benti á að að þessu leyti er grg. nál. röng.
    Ef svo er að nú liggi fyrir sá skilningur fjármálaráðuneytismanna að þeir telji ekki að þetta þurfi fortakslaust allt að vera framlög til Byggðastofnunar sem samið er um í viðauka I í búvörusamningi þá liggur bara fyrir ágreiningur í því máli geri ég ráð fyrir. Mín túlkun sem þáv. landbrh. liggur fyrir. Ég hef margendurtekið skýrt frá því hver minn skilningur var og það hefur aldrei leikið neinn vafi á um það. Ég á voðalega erfitt með að sjá hvernig menn ætla að halda því fram að inn í viðaukann, sem allur er um framlög ríkisins til mismunandi verkefna, hafi læðst eitt ákvæði þar sem menn hafa verið að hugsa sér að einhverju leyti lántöku.
    En að lokum segi ég um það atriði að ef uppi er ágreiningur milli samningsaðilanna þá á auðvitað að leysa hann, þá á að fara í viðræður um hann og leysa hann. Til þess eru m.a. gerðardómsákvæði í samningnum. Ef menn vilja ekki fara þá leið þá er náttúrlega til dómstólaleiðin til að skera úr um svona atriði.