Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 16:46:39 (3046)


[16:46]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hæstv. fjmrh. sagði áðan að þessi deila yrði ekki leyst í sölum Alþingis. Það er alveg hárrétt. En við alþingismenn lítum svo á að það sé mjög nauðsynlegt að taka þetta upp hér og það er ekki í fyrsta skiptið sem við gerum það vegna þess að við teljum að ríkisstjórnin og samninganefnd ríkisins hafi komið fram af ótrúlegu ábyrgðarleysi í þessu máli.
    Það virðist svo sem ríkisstjórnin og samninganefndin ætli að kúga sjúkraliða til hlýðni í þessu máli. Samningar hafa verið lausir í á annað ár og nú hefur verkfall staðið í sex vikur og ekkert hefur þokað. Hæstv. fjmrh. lýsti því að komin væri tillaga sem hefði verið lögð fyrir sjúkraliða. Það er auðvitað vel að eitthvað sé gert, en mér sýnist að hingað til hafi ríkisstjórnin því miður ekki tekið af neinni ábyrgð á þessu máli og það er kominn tími til að hún geri það af einhverri alvöru. Það þýðir ekkert að vera með eitthvert hálfkák. Auðvitað bitnar þessi deila á sjúkraliðum og fjölskyldum þeirra en hún bitnar fyrst og fremst á sjúklingunum og þá aðallega öldruðum.
    Ég er t.d. með bréf í höndunum frá konu sem hefur á sínum vegum aldraða móður sína þar sem lýst er hversu slæmt ástandið er. Mig langar til að lesa eina setningu úr þessu bréfi, með leyfi forseta:
    ,,Ekki vantar hástemmdar lýsingar stjórnmálamanna á hátíðarstundum. Þá eru forfeður og mæður lofuð. Hversu mikið mark er á því slagorðaflóði takandi? Því miður, ég tek því með fyrirvara. Ég hef reyndar stundum velt því fyrir mér hvort alþingismenn og ráðherrar séu allir upp til hópa munaðarlausir.``
    Er það kannski ekki akkúrat þetta? Þetta bitnar mest á gamla fólkinu og það bitnar á dætrum þeirra og tengdadætrum fyrst og fremst því þetta bitnar langmest á konum því að það eru ekki bara sjúkraliðarnir sem eru upp til hópa kvennastétt heldur þurfa konurnar að taka ábyrgð á þessu fólki. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórnarinnar og samninganefnd ríkisins í þessu máli.