Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 16:53:25 (3049)


[16:53]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni reyna þingmenn á þessu hausti að ýta á eftir því að hin alvarlega og langa kjaradeila sjúkraliða fái farsæla lausn. Það er sérstakt hve allir sem tjá sig um þetta mál, hvar sem er, eru sammála. Við álítum að það sé réttlætismál að sjúkraliðum veitist kjarabætur og við álítum líka að það alvarlega ástand sem skapast hefur á ýmsum deildum öldrunar- og langlegudeildum megi ekki magnast meira en orðið er. Og allir þeir sem í heimahúsum hafa nú skerta þjónustu vænta þess að málið sé farsællega og réttlátlega til lykta leitt og það fljótt.
    Það er mér persónulega undrunarefni að sjá hve kjaramálum sjúkraliða hefur núna verið klúðrað í vissum þáttum. Einkum finnst mér það furðulegt hve þeirri leið að efna til framhaldsnáms fyrir sjúkraliða hefur verið klúðrað. Í samningum hefur verið að þeir geti bætt kjör sín með viðbótarnámi sem kallað er 120 eininga, þ.e. 120 kennslustunda nám, og þetta hefur átt að veita þeim eins launaflokks hækkun. Þetta áttu þeir að geta öðlast á sex vikulöngum námskeiðum utan vinnutíma, en einnig hefur verið í boði einnar annar nám fyrir sjúkraliða sem áttu að vinna það á kaupi og sækja í dagskóla. Þetta virðist ekki hafa orðið að neinu eiginlega vegna þess að ekki fékkst leyfi hjá vinnuveitendum til námsins þegar til átti að taka. Svona samningar eru auðvitað bara plat.
    Einnig hefur komið í ljós að auknu námi fylgdi ekki aukið afmarkað verksvið og það vita allir að þannig er ekki hægt að standa að málum. Þess vegna þurfa hæstv. fjmrh., hæstv. menntmrh. og hæstv. heilbrrh. að taka höndum saman og kippa svona málum í lag svo að raunveruleg kjarabót geti orðið úr þessum samningum. Það er ekki hægt að bæta við þessa samninga, eins og mér skilst að tilboð hafi gengið út á, nema þetta sé gert um leið.
    Ég bendi hæstv. ríkisstjórn á að það er ekki bara að við hér sem viljum að samið verði og samið verði strax heldur vill öll þjóðin að það verði samið strax.