Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 16:55:58 (3050)


[16:55]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er ömurlegt að það skuli ekki vera hægt að koma til móts við sjúkraliða í þessari deilu og alveg sérstaklega í ljósi þess að það er búið að semja um hækkun hjá annarri heilbrigðisstétt nú á árinu en ekki síður í ljósi þess að sjúkraliðar annars staðar á landinu búa við verulega hærri laun en þeir sem eru í verkfalli og það er sami atvinnurekandinn sem borgar þeim sjúkraliðum laun. Ég tel algerlega siðlaust af ríkinu og forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að ganga ekki til samninga við sjúkraliða á grundvelli þeirra kjara sem hafa verið í gildi árum saman við sjúkraliða. Og það er einkennilegt að hækkun hjá hjúkrunarfræðingum getur gengið allt í kringum landið á augabragði en það er ekki hægt að leiðrétta bág kjör sjúkraliða með sama hætti þegar viðmiðunina þarf ekki að sækja nema í þeirra eigin raðir.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra og það er eins gott að hann svari því. Við gerðum ótal tilraunir til að fá svör í sambandi við sjómannaverkfallið í fyrra þegar þingið var að fara í jólafrí. Þá viku menn sér undan því að svara hvort það stæði til að leysa kjaradeilu með lagasetningu. Stendur það til, er það hugmyndin að sett verði lög á sjúkraliða um leið og þingið er farið heim? Var það þess vegna sem hæstv. ráðherra sagði að þessi deila yrði ekki leyst í sölum Alþingis? Var það það sem var meint, að það ætti að leysa hana við ríkisstjórnarborðið?