Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 17:01:41 (3053)


[17:01]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Því miður er það rangt hjá hæstv. fjmrh. að samninganefnd ríkisins reyni hvað hún getur. Við sjáum í Dagblaðinu í dag tóninn í helsta forustumanni samninganefndar ríkisins þar sem hann leyfir sér að fara háðsorðum um sjúkraliða í viðtali við eitt helsta dagblað landsins í dag. Forustumaður samninganefndar sem er að hæðast að viðsemjendum sínum opnberlega eins og Indriði Þorláksson gerir í DV í dag hefur ekki fengið þá skipun frá yfirmanni sínum að leita alvarlegra lausna á þessari deilu.
    Það eru þríþættar meginröksemdir fyrir því að það sé sanngjarnt og eðlilegt að semja við sjúkraliða, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. Fyrsta röksemdin er sú að hjúkrunarfræðingar fengu tvímælalaust fyrr á þessu ári kjarabætur verulega umfram það sem ríkisstjórnin hefur boðið sjúkraliðum. Í öðru lagi er það líka staðreynd að sjúkraliðar víða um land hafa nú þegar mun hærri laun en þeir sjúkraliðar sem eru í verkfalli. Og í þriðja lagi hafa fjmrn., samninganefnd ríkisins og félmrn. gert samninga við aðrar stofnanir eins og Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands þar sem starfsfólk þessara stofnana fær á skömmum tíma 9% launahækkun, til viðbótar við almennar launahækkanir, með því að taka þátt í þremur námskeiðum. Í Félagstíðindum Starfsmannafélags ríkisstofnana er ítarlega lýst að þetta samkomulag um námskeiðin í þessum tveimur ríkisstofnunum hefur verið gert til að hækka lægstu launin vegna þess að þetta starfsfólk sé með lægstu launin í þessum stofnunum, að félmrn. greiði kostnaðinn af þessum námskeiðum og ítarleg lýsing fer fram á því hvað þar fer fram. Það er ekki hægt að mismuna stéttunum í landinu á þann veg að sú stétt sem er með hvað lægst launin í heilbrigðiskerfinu njóti ekki sama réttar og hjúkrunarfræðingar, njóti ekki sama réttar og starfsfólk annars staðar sem sinnir sömu störfum og njóti heldur ekki sama réttar og starfsfólk í ýmsum ríkisstofnunum sem nú er að fá, réttilega og ánægjulega, verulegar kjarabætur á grundvelli námskeiða. Það eru þess vegna nægileg fordæmi til að leysa þessa deilu, hæstv. forsrh. Það skortir bara viljann, hæstv. heilbrrh., að standa við orðin sem hæstv. heilbrrh. lét falla fyrir fjórum vikum síðan.