Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 17:04:31 (3054)


[17:04]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Það er sagt hér að samninganefnd ríkisins komi fram af alvöruleysi. Ég ætla að segja það hér og nú: Mér finnst að hv. þm. hafi ekki tekið eftir því sem ég sagði í minni fyrri ræðu. Þar kom skýrt fram að samninganefnd ríkisins og samninganefnd Reykjavíkurborgar í fullu samráði við fjmrh. og borgarstjórann í Reykjavík hafa lagt fram tilboð og það var gert 9. des. Það hefur verið ítrekað og lagfært og síðast í dag voru lögð ný gögn fram í málinu og óskað eftir því að svör kæmu. Þetta liggur fyrir. Í þessu máli hefur verið unnið af fyllstu alvöru.
    Í öðru lagi vil ég að það komi skýrt fram að í þessu tilboði er gert ráð fyrir því að sjúkraliðar fái sömu launahækkun og aðrar heilbrigðisstéttir hafa fengið undanförnum árum. Það kemur skýrt fram í þessu tilboði og því hefur sem betur fer ekki verið hafnað. Það er rétt sem hér hefur verið sagt að þetta er löng deila en þetta er deila á milli tveggja aðila. Ég skora á Sjúkraliðafélag Íslands og forustumenn þess félags að skoða þetta tilboð vel því að ég er viss um að þegar það er skoðað vel og af fyllstu alvöru þá er

hægt að ná saman í þessari viðkvæmu deiu.
    Síðast vil ég segja þetta, virðulegi forseti: Hér kom upp hv. þm. Jóhann Ársælsson og spurði: Ætlar fjmrh. að setja bráðabirgðalög á þetta verkfall? Og það er eðlilegt að hann spyrji þessarar spurningar. Af hverju er það eðlilegt? Af því að hann kemur úr flokki sem sat í ríkisstjórn sem beitti bráðabirgðalöggjafarvaldinu trekk í trekk til þess að leysa kjaradeilur og meira að segja eftir að samningar höfðu gengið. ( Gripið fram í: Hver beitti því líka?) Hér töluðu fjórir fyrrv. ráðherrar úr þeirri ríkisstjórn og þar á meðal sjálfur félmrh. sem bar ábyrgð á málum eins og kjaradeilum. Og trúa menn sem vilja. Eru þetta heilindi þegar menn koma hingað og segja að þetta sé allt saman ríkisstjórninni að kenna? Ég bið þá um að átta sig á þessum staðreyndum málsins.