Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 17:56:14 (3056)


[17:56]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundi Bjarnasyni, fyrir málefnalega ræðu en ég vil nefna nokkur atriði sem komu fram í ræðu hans og m.a. taka undir að vissulega er rétt að oftast gefst of lítill tími til þess að fjalla um tekjuhlið fjárlaga og það var svo einnig að þessu sinni. Það er rétt að álit frá efh.- og viðskn. komu seint en ég held að allar upplýsingar hafi samt sem áður legið fyrir. Hins vegar höfðu athugasemdir frá efh.- og viðskn. hvað varðar tekjuhlið málsins kannski ekki komið nægilega fram. Kannski er nauðsynlegt að draga fram úr áliti minni hluta efh.- og viðskn. um tekjuhliðina að þar er fyrst og fremst gagnrýnt að skattar séu ekki hækkaðir og það er útgangspunktur sem meiri hluti fjárln. gat ekki fallist á og hefði ekki getað fallist á.
    Í annan stað vil ég nefna að ég deili áhyggjum með hv. þm. í því máli sem hann nefndi um 50 millj. kr. sparnað vegna sjúkraþjálfunar. Auðvitað er nauðsynlegt að leita allra leiða til þess að draga úr útgjöldum og spara en ég held að það þurfi að fara mjög varlega í að breyta svo reglum eða ganga svo hart fram varðandi endurgreiðslur fyrir sjúkraþjálfun að það komi í veg fyrir þau markmið sem eru almennt með sjúkraþjálfun. Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur af því hvernig samningar verða við sjúkraþjálfara og hvernig reglum verður breytt og tel að nauðsynlegt sé að fylgjast mjög náið með því.
    Varðandi samkomulag við stóru spítalana vil ég segja það vegna ræðu hv. þm. að mjög merkilegur samningur hefur náðst við stóru sjúkrahúsin og það er tímamótaverk á sviði rekstrar heilbrigðisstofnana.